5.9.05

Bloggrán?

Stundum er það nú bara þannig að í kommentum koma svona líka ljómandi góðir pistlar. Ég var að rekast á tvo sem komu fyrir nokkru síðan en ég var ekki að hafa fyrir að lesa, einhverra hluta vegna, fyrr en eftir dúk og disk, þ.e.a.s. núna. Mitt umræðuefni í pistli var í hvaða röð maður segði Nanna og Jón Geir, annars vegar, og röðun bóka hins vegar. Mér finnst mér ekki stætt á öðru en að birta svör Varríusar og Óbermisins Sævars hér í heild sinni. Þetta geri ég algjörlega án þess að spyrja höfunda og er örugglega með því að brjóta slatta af höfundarlögum.

En, bókstaflega, nauðsyn brýtur lög:

Varríus sagði:

Já röðin. Allt er þetta nú spurning um kríteríur:

Stafrófsröð?
Öfug stafrófsröð?
Stærðarröð?
Öfug stærðarröð?
Hverjum-þú-kynntist-fyrst-röð?
Öfug H-Þ-K-F-röð?
Hljómar-betur-röð?
Öfug H-B-Röð?

Eða bara sú almenna og ófrávíkjanlega regla að trommarar séu taldir upp síðastir.

eða öfugt.

Athugaðu líka að sumar þessar kríteríur nýtast líka ágætlega þegar bókum er raðað. Aðrar síður.

og öfugt.


Sævar sagði:
Smæðarröðin! Nanna og Jón Geir er mun eðlilegra. Miklu betra að enda á eins atkvæðisorði en tveggja. Meiri hvíld fyrir talfærin. (Talarðu ekki annars allt jafnóðum sem þú slærð inn, eins og ég?) Ég prófaði líka Nanna Geir og Jón, Nanna Jón og Geir, Geir Jón og Nanna, Jón Nanna og Geir, en ekkert af því virkaði. Grunar helst að það sé jafnvel ólöglegt.

Hljómar-betur-röðin virkar ekki á bækurnar. Nema maður taki eina og eina og láti detta flata í gólfið úr brjósthæð (teppalagt gólf er ómark) og raði síðan frá vinstri til hægri þeim sem gera mesta skellinn. Maður raðar nb bókum ALLTAF frá vinstri til hægri.

Lengi vel raðaði ég bókum reyndar eftir litum á kili og/eða frá hæstu til lægstu. Stundum varð til aflíðandi brekka efst, afspyrnuljót. Og Saga Kaupfélags Norður Þingeyinga og Engin miskunn eftir Dick Francis urðu að gjöra svo vel að standa hlið við hlið af því þær voru báðar grænar. Konan mín hló að þessu. Henni fannst aftur á móti óþægilegt ef ég raðaði ekki diskunum eftir stærð í uppþvottagrindina, eða þvottinum á snúruna frá stærsta stykki til hins smæsta. Ég hló bara að henni.
Og svona höfum við hlegið að furðulegum einhverfutendensum hvors annars þar til þeir afmáðust með öllu hjá okkur báðum. Og núna! Bækurnar allar í rugli, uppvaskið í vélinni, þvotturinn í kuðli í þurrkaranum... en ég hef reyndar tekið eftir að börnin eru í stærðarröð eftir aldri. Gæti hafa verið undirmeðvitundin sem raðaði þeim niður.

Svo biðst ég afsökunar. Borðaði langloku í hádeginu.


Mér er fyrirmunað að ímynda mér hvers vegna Sævar er ekki með blogg. Langlokur ætti hann allavega að hafa til matar sem oftast.

9 ummæli:

Gummi Erlings sagði...

Já, já! Sævar blogga, Sævar blogga! Og Ármann líka!

Varríus sagði...

Stærðarröð eftir aldri er skammgóður vermir. Eða hefurðu kannski ekki hitt ELDRI systkini þín nýlega Sævar?

fangor sagði...

ja ekki hækkaði ég með aldrinum..

Nafnlaus sagði...

Puh... hvað þá ég..
Annars finnst mér ekkert að Sævar þurfi að blogga. Mér finnst ég næstum vita allt um hann á mínum daglega netrúnti. Þ.e.a.s ef ég les kommentin!!

Nafnlaus sagði...

Blogg er bara fyrir aumingja sem hafa ekkert annað þarfara við líf sitt að gera en velta sér og alþjóð upp úr því. Aldrei dytti mér í hug að eyða dýrmætum tíma mínum í að blogga, hvað þá lesa annarra manna blogg eða skrifa við þau athugasemdir.

MÚÚHAHAHAHHAHAHAHAH!!!!!

Neinei, ég hefa bara akkúrat ekkert að segja elskurnar. Ætli þetta sé ekki bara af sömu ástæðu og þeirri að ég skrifa helst ekki leikrit nema með öðrum. Þá hef ég e-n til að vinna hugmyndavinnuna og skrifa svo. Ef ég skrifa einn, þá geri ég leikgerðir á e-u sem aðrir hafa skrifað, það er svo þægilegt. Þess vegna sendi ég bara kjánalegar athugasemdir á annarra manna blogg en nenni alls ekki að halda úti einu sjálfur.

P.S. Mikið er annars gaman þegar kommentin manns fá stöðuhækkun og birtast í heild sinni í meginfærslum.

Gummi Erlings sagði...

Sævar er þá Michael Owens bloggsins, hefur lítið með samspilið að gera en ef boltinn dettur fyrir tærnar á honum verður iðulega úr því mark. Bloggpotari, semsé...

Varríus sagði...

Snilld!

Nistelroy kemur líka upp í hugann. Sævar er bara sætar en þeir báðir. Sérstaklega Ruud.

Nafnlaus sagði...

Er að reyna að sjá annan hvorn þessara manna fyrir mér ... en nei ... það er allt blanco! Kannski smá rautt með blanco-inu hjá Ruud.

Eða jú annars, er það ekki hann sem lítur út eins og skopmynd af hesti? Eða eins og hann hafi stigið í hökuna?

Varríus sagði...

Múhahahahaha!