5.9.05

Mál málanna

En ekki dugar að týna sér endanlega í Móðursýki. Eitt er búið að vera að brjótast um í mér. (Það er að segja, annað en afkomandinn á mæjónesflippinu.)

Nú kom flóðbylgja um jólin. Skolaði burtu heilu strandbyggðunum í heimshluta sem okkur þykir við nú jafnan hafa efni á að líta dáldið niður á sökum vanþróunar og fátæktar og mannlegra vandamála hvusslax. Og hvernig gekk það til? Að hamförum afloknum, og reyndar á meðan á þeim stóð, fóru flestir nú bara að hjálpast að við að reisa við það sem eftir var, bjarga því sem bjarga varð og einhverjir huxuðu sér upplendis með fjölskyldur sínar. Það sem heyrðist af misindismönnum var að einhverjir óprúttnir voru staðnir að því að ræna börnum og selja. Var slíkt þó litið hornauga og þorri eftirlifenda lagðist á eitt um að hafa augun hjá sér og koma í veg fyrir slíkt.

Og nú renna öll vötn til New Orleans.

Allt fer á flot og talað er um að hamfarir séu jafnvel meiri. Og hvað gerist fyrst alls? Flokkar ribbalda og óþjóðalýðs brjótast upp á yfirborðið, ösla innan um hræ og brotsjó og ræna, nauðga og drepa. Gera það að verkum að þeir sem eru að reyna að stunda hjálparstarf hafa ekki frið til þess. Maður spyr sig, hvað er eiginlega að þessari þjóð? Og þetta þykist þess umkomið að siða til alla aðra í heiminum?

Maður getur sett sig í spor. Segjum sem svo að fína stíflan inni á Kárahnjúkum bresti og skoli burtu helming héraðsins. Ætli nokkur einast kjaftur væri svo illa innrættur að huxa: "Hei, sniðugt. Best að fara út og ræna einhvern." Eða: "Nú get ég loxins kálað þessari sem ég þoli ekki, þarna uppi á Laufás. Tekur örugglega enginn eftir því."

Ég huxa að hvergi annars staðar en á sumum vesturlanda er eiginhaxmunahyggjan orðin svo algjör að til séu marrrgir sem hika ekki við að notfæra sér náttúruhamfarir á þennan hátt. Og þá verður maður að spyrja:

Hvað er þá orðið okkar starf í sexhundruð sumur? Höfum við,kæru vinir, gengið til góðs, götuna fram eftir veg? Eða erum við búin að brjóta og týna....
og svo framvegis.
[Fáfnismenn, 1. þáttur, held ég að ég muni rétt.]

Held við ættum allavega að huxa okkur vel og vandlega um áður en við ákveðum að heimsbyggðinni allri sé best borgið með okkar siðferðisviðmiðum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Laufás nr. hvað?

Neinei, enga helvítis kaldhæðni.

Þetta er mjög athygli-SVER punktur (sbr. rithátt útúrsnúðsins Varríusar sem aldrei virðist geta tekið nokkurn hlut alvarlega).

Þorleifur Örn Arnarsson skrifar einmitt um þessa viðbjóðslegu óöld í Fréttablaðið í dag (mánudag 5. sept., bls. 21) og veltir fyrir sér af hverju þetta gerist í Bandaríkjunum en ekki t.d. í flóðunum í Prag eða annarsstaðar. Athygli-sver og umhugsunar-(s)ver grein, þótt pólitísk sé.