Það er komið á hreint. Nokkuð endanlega, held ég bara. Mér er búið að vera að sýnast þetta, annað slagið í vetur, en í gær, í Grandi-Vogar, fékk ég staðfestingu sem ekki verður um villst.
Ég sá þrjár unglingsstúlkur úti á götu með íþróttabuxurnar kyrfilega girtar ofan í sokkana. Ég fékk margfalt flassbakk og minntist almenns fótabúnaðar úr gaggó.
Þegar heim kom beið mín síðan óvænt kynjamismunun. Bæklingur frá Smáralindinni þar sem mönnum er ráðlagt hvað skal gefa í jólagjafir. Og niðurflokkað, m.a. eftir kynjum. Frekar eru þetta nú óspennandi jólagjafahugmyndir svona yfirhöfið. En samkvæmt þessu hefur kvenfólk almennt ekki áhuga á neinu nema útlitsvörum og búsáhöldum af leiðinlegra taginu. Og bókum eftir konur. Konur gætu viljað fá kökudisk, en kallamegin er pizzuhnífur. Karlmenn gætu líka viljað fá tæki og tól til áfengisneyslu og það verður nú að segjast að þeirra bókmenntir eru talsvert meira spennandi en kjeeellingabækurnar.
Það er nefnilega það. Hann fékk bók en hún fékk nál og tvinna.
Á hvaða öld erum við eiginlega?
Og þar sem ég var alveg að komast á barm taugaáfalls yfir öllu sem gera þyrfti í undirbúningi barns, kom Rannsóknarskipið til mín í vinnuna í gær og reddaði bóxtaflega öllu. Fæðingarorlofspappírar eru á hraðri leið í Tryggingastofnun, við höfum fest leigu á rúmstæði undir afkomandann fyrstu mánuðina og svo bætti Nanna um betur og sagðist eiga bílstól til að lána mér þangað til hún þarf að nota hann sjálf. (Sem sagt... fyrir barnið... ekki Tomma litla... sem ætti þó vissulega að koma til greina sem nafn á barnið.) Það er greinilega mjög sniðugt ef menn hafa svona 6-12 mánuði á milli barna innan kunningjahóps, þá er bara hægt að láta kittið ganga. Sniðugt.
Svo fann ég líka um daginn fyrirbæri sem heitir BabySam, en þar er hægt að leigja næstum allt sem við á að éta, á skítogkanil. Eiginlega bara allt nema krakkann sjálfan. (Já, hina grindkvalina er stundum hægt að pumpa um upplýsingar.)
Þetta finnst mér hið sniðugasta mál. Man alveg hvernig fór t.d. fyrir barnadótinu á mínu bernskuheimili. Það tók upp pláss í geymslunni þangað til mamma var orðin úrkula vonar um að eignast barnabörn, þá var það selt fyrir slikk og/eða fór á haugana. Og ég á ekki einu sinni geymslu þannig að ég get ekki leikið þetta eftir.
29.11.05
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli