27.11.05

Ekki dugar

að láta bloggið drepast ofan í horið á sér.

Er öll að skríða saman. Rannsóknarskip að ryksuga. Smábátur hjá ömmu sinni og afa. Var sjálf að komast að því að það er sulta á tölvunni minni, einhverra hluta vegna.

Fórum á meira námskeið í gær. Fengum útlistanir á því, í mjög ítarlegum smáatriðum, hvernig fæðingar ganga fyrir sig. Það var... áhugavert. Svo fengum við að sjá fæðingadeildina. Held ég sé nú eiginlega byrjuð að fá pínulítinn vott af kvíðakasti, svona innst inni. Hugga mig við að þetta á nú víst ekki að gerast fyrr en "einhvern tíma á næsta ári."

Eftir þennan truflandi morgun náði ég niður taugunum með því að jóla heima hjá mér. Eða öllu heldur aðventa. Gerði vörutalningu á aðventuljósum heimilisins og raðaði þeim útum allt af kvenlegu innsæi. Ofan á rykið, af því að ég nennti ekki að þurrka það neitt vel. (Dulbý letina með því að ljósmóðirin mín er löngu búin að harðbanna mér að þrífa fyrir jólin. Það er með því fallegra sem hefur verið sagt við mig.)

Á meðan á aðventinu stóð hlustaði ég að jóladiskinn hennar dr. Tótu, Það besta við jólin. Hann er svakalega góður og skemmtilegur og ég mæli með honum. Þeir sem ég ætla að gefa hann í jólagjöf mega samt alls ekki versla sér hann sjálfir. Það er svindl.

Og Rannsóknarskip ryksugar bara og ryksugar. Nú er líklega best að halda áfram að þýða svo mar fái ekki samviskubit.

5 ummæli:

Bára sagði...

Hei! Mig langar í diskinn með Doktor Tótu. Ætli ég bíði ekki bara og sjái hvort ég fái hann ekki í jólagjöf...

fangor sagði...

svona nú. farðu ekki að fara á taugum yfir þessu fæðingadóti öllu, það er nánast örugg leið til þess að allt fari úrskeiðis. vertu bara hughraust, ég þykist viss um að þú höndlir þetta með stakri prýði.

Sigga Lára sagði...

Hægara ort en gjört, gæskan, en það fer sjálfsagt aldrei ver en illa.

Nafnlaus sagði...

ryk hefur þann undursamlega hæfileika að sjást hvorki í kertaljósi eða seríuljósum, sem er mjöööög gott.

Elísabet Katrín sagði...

Hugsaðu bara EKKERT um fæðingar fyrr en EFTIR að krílið er komið í heiminn! Sjáumst fljótlega :)