1.12.05

Fyrstides!

Mér finnst fyrsti desember alltaf vera hátíðisdagur. Þegar ég var lítil var frí í skólanum á þeim degi. Þegar ég var mjög ung og heimsk hélt ég að það væri alveg pottþétt vegna þess að amma mín ætti afmæli. En það á hún! Hún amma Sigga er 83 ára í dag. Sendi henni hugheilar afmæliskveðjur á heilbrigðisstofnun Austurlands, Egilsstöðum.

Nú er að verða 1 og hálft ár síðan hún flutti búferlum þangað sökum heilsubrests. Þegar ég var lítil vann hún við að skúra sjúkrahúsið. Þar áður vann hún þar líka við að passa hvítvoðunga á nóttunni, á meðan enn var til siðs að nýbakaðar mæður fengju að hvíla sig eftir fæðingar.

Það er sem sagt eins og hún hafi flutt í vinnuna.

Svo mundi ég í morgun að foreldrar mínir áttu 37 ára brúðkaupsafmæli í gær. Talaði við mömmu í gær og mundi ekkert eftir að óska henni til hamingju. Enda hefur hún sjálfsagt ekkert munað eftir því heldur, frekar en nokkurn tíma áður. Það er nefnilega svo skemmtilegt með þessi hamingjusömustu hjón sem ég þekki, pabbi minn týndi giftingahringnum sínum fáum árum eftir að hann setti hann upp. Mamma fitnaði á puttunum við barneignir og hætti að ganga með sinn. Og þau sjá enga ástæðu til að halda sérstaklega uppá að þau séu gift, á hverju ári. Ekki einu sinni þegar það eru "merkis". Mér finnst það ógurlega rómantískt.

Og einhver mætti nú samt gefa mönnunum á næsta þaki frí í dag. Þeir eru að bora og saga þannig að maður heyrir ekki sjálfan sig huxa, þriðja daginn í röð. Mikið ógurlega verður mar nú hissa og feginn þegar það verður búið að gera það sem menn ætla á lóðinni þar sem Stjörnubíó stóð einu sinni. Hávaðanum hefur varla linnt þar síðan verið var að brjóta upp fyrir nýjum neðanjarðarsal þar í kringum 2000. (Sem var rétt áður en allt var svo rifið með manni og mús.) Nú eru sem sagt að verða 5 ár síðan mannsins mál hefur heyrst hér á skrifstofu Bandalags íslenskra leikfélaga.

Ekki skrítið að við séum orðnar geðvondar og heilaskemmdar.

4 ummæli:

Berglind Rós sagði...

Mér finnst líka að fyrsti des sé sparidagur. Og á hún Mæja ekki einmitt líka afmæli í dag? Ég man ekki betur, svo á mamma mín afmæli á morgun. Þetta eru miklir merkisdagar :-)

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þið alls ekkert skapvondar og því síður heilabilaðar en vorkenni ykkur samt einhver ósköp að búa við þessi læti;-) Mamma mín hefði líka átt afmæli á morgun, sammála því að þetta eru merkisdagar!
knús mamma litla,
Halla

Spunkhildur sagði...

Til hamingju með ömmu Siggu. Afi minn á afmæli 1. maí. Ég hélt líka að það væri frí útaf afmælinu hans. En seinna fattaði ég að þá óskar maður þjóðinni til hamingju með öreigana.

Nafnlaus sagði...

Sonur minn miðbarnið á einmitt afmæli 1. des. Og tengdapabbi Jonnu. Og Magni hljónstargaur í ÁMS. Og mamma einhvers sem ég hitti um daginn, man bara ekki hver ...