30.11.05

Jóló?

Var að fletta plötutíðindum í gær, svona frekar annarshugar þar sem mig langar sjaldan í plötur fyrr en þær eru orðnar gamlar. (Með Það besta við jólin og Jólaævintýri Hugleiks að undantekningum, uððitað.) Allavega, eftir nokkur flett fór ég að taka eftir því að hann Sveppi litli er bara á öðru hverju umslagi í ár. Fylltist móðurlegu stolti.

En þegar maður spáir í það er hann auðvitað einstaklega jólalegur náungi.
Og þá dettur mér í hug ein lítil Montpellier-saga.

Við vorum í partíi hjá Reyni og Aðalsteini. (Tveimur öðrum Mont-sonum mínum.) Mikið stuð hjá Íslenskum námsmönnum þess vetrar og þeirra nánustu félaga, þetta regnsama kvöld. Vill þá svo óheppilega til að pabbi Reynis hringir. Í heimasímann sem er í miðju partíinu. Við hljóðnum og prúðnum hið snarasta, pabbi hans Reynis er nebblega prestur, og okkur þótti allt í einu mjög nauðsynlegt að hann sæti heima á Íslandi í þeirri trú að Reynir sæti einn heima, hljóður og prúður, þetta föstudaxkvöld.

Ekki gat nú áðurnefndur Sverrir þó setið lengi á sér, og fór bráðlega að óþægðast. Við reyndum að skamma hann, en strákur hélt nú bara áfram að vera með óþægð og sagði:
"Og hvað haldiði að hann geri? Kemur hann?"
Og ég sagði: "Nei, hann sendir Guð!"

Í þann mund gerðist þrennt. Það kom geðveik elding, rafmagnið fór og einhver braut glas. Held kannski að við höfum öll borið pínulítið meiri virðingu fyrir, ja, allavega þeim kaþólska, þareftir.

Sambandið slitnaði líka við séra Hjálmar, og þegar það komst á aftur voru allir hættir að vera þægir þannig að það komst upp um allt saman.

Og Sveppi hefur sennilega bara fyllst þessari líka guðhræðslu. Hann er allavega kominn framan á annan hvern jóladisk...

1 ummæli:

Gadfly sagði...

Dásamlegt þetta sem við köllum tilviljanir :)