7.12.05

Vitjun

Í nótt dreymdi mig draug fortíðarjóla. Ekki vitjaði sá nú nafns, eins og títt ku vera um framliðna sem heimsækja vanfærar konur, en ég er ekki frá því að hann hafi verið að vitja fæðingardags.

Ásamt dagsetningunni 28. desember (sem ég ætla að miða á, bara til að stríða Báru syss, sem vill helst ekki að fólk sé að stela því sem hún á) finnst mér 5. janúar nú orðinn nokkuð líklegur...

Og jólin nálgast eins og óð fluga. Við Rannsóknarskip erum að skipuleggja yfir okkur. Erum að fá hana Eló mína í heimsókn um helgina. Með hana þarf að sjálfsögðu að fara á sýningu á Jólaævintýri. Smábátur er að fara að lesa eitthvað fallegt í Dómkirkjunni á sunnudag þannig að það stefnan er tekin í messu, hvar ég bind vonir við að hann sr. Hjálmar verði að kirkja. Svo ætlum við auðvitað bara að sitja, stolt og klökk, eins og foreldrar Tomma litla.

Svo er laufabrauð hjá ömmu Smábáts og fjölskyldu. Hlakka mikið geðveikt til. Einn höfuðókostur þess að búa ekki á Egilsstöðum er að hafa dottið útúr laufabrauðsgerð. Og ég er ekki enn farin að þora að leika mér með svona djúpsteikingarfeiti. Situr sennilega eitthvað í manni hvað þetta var útmálað sem STÓRHÆTTULEGT þegar mar var lítill. Þess vegna hef ég aldrei á ævinni bakað svo mikið sem eina kleinu upp á eigin spýtur.

13 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég get svarið að ég var sjálfur í huganum að færa komudaginn frá þrettándanum yfir á fimmta jan. Rétt áðan. Fríkað.

Nafnlaus sagði...

Mér finnst nú tilhlýðilegt að þú haldir í þér barninu til 25. janúar..

Já og ég er einmitt með svona fortíðarfóbíu gegn feiti, bæði steikingarfeiti og ekki síður fondúsullinu. Móðir mín var svo stressuð við fondúpottinn og hún hengdi lóð á alla útlimi viðstaddra til þess að hreyfingarnar yrðu hægari!

Og man ég þá eftir þessari setningu sem góður maður sagði eitt sinn: "Já og svo er líka verið að steikja kleinur!"

Nafnlaus sagði...

Skilaðu fyrir mig kærri kveðju frá mér til Ingu Láru og Óla Haralds, ef þú ert þá að fara í laufabrauð til þeirra (sem mig grunar)með smábát. Þetta er lítið land Ísland. Gangi þér svo vel að koma kafbáti upp á yfirborðið :)
Jólakveðja til ykkar Árna...
Gunnar Halldór (Ísbjarnar Kartlands biskup)

Sigga Lára sagði...

Jú, það eru einmitt þau. Og ég skal skila því. Og gaman að heyra lífsmark frá þér, kæri fyrrverandi faðir. Frá... Hvammstanga, ekki satt?

Já, þetta er lítið land, þykir mér.

Bára sagði...

uuu. Já. Barnið má alveg eiga afmælisdaginn með mér. Finnst þó frekar ólíklegt að það líti dagsins ljós það snemma. Veðja á fyrrihluta næsta árs ....

fangor sagði...

ég held fast við 6.jan. fæ þá bara nálægðarverðlaunin ef rangt reynist. er enn ekki búin að ákveða kyngreiningu.

Nafnlaus sagði...

6. Janúar er afbragðs fæðingardagur!! Hún Fóstra mín Inga, var fædd þennan dag og hjá henni hlaut ég strangt en gott uppeldi fyrstu sex ár ævi minnar. Og ég get sko alveg kennt þér að steikja kleinur Sigga mín því að ÞAÐ kann ég, eins og frægt er orðið svo ég vísi nú í orð Bibba hér að ofan!!

Nafnlaus sagði...

Pant vera með í kleinugerðinni. Ég hef fyrir löngu sett stefnuna á að vera bakandi mamma en hef hingað til ekki hætt mér í að steikja kleinur og parta (soðbrauð eða soðið brauð eftir því hvaða landshluta orðaforðinn á rætur sínar að rekja). Praktísera heldur ekki flatkökugerð (ljósu gerðina) en hef þó prófað það með ágætum árangri.

Svandís sagði...

Ég spái lendingu þann 14. janúar og stelpustýri skal það vera.

Spunkhildur sagði...

Ég er svo óforskömmuð að ég ætla ekki að baka neitt fyrir jólin. Mér þykir jafn líklegt að ég steiki kleinur eins og ég útvatni ormaðan þorsk. Mér hafa alltaf þótt kleinur svona kaffimeðlæti sem maður borðar af því það er dónalegt að éta sig saddan af tertu einnisaman.

Berglind Rós sagði...

En frískaðu nú upp á gullfiskaminnið mitt og segðu hvenær þú ert sett svo ég viti á hvaða dag ég er að giska, ætla nefnilega að halda mig fast við 6 daga fram yfir settan dag.

Sigga Lára sagði...

Föstudaginn 13. janúar er ég sett. Þannig að þú ert væntanlega að giska á 19. jan.

Nafnlaus sagði...

Ef eitthvað barn á rétt á því að fæðast föstudaginn 13. þá er það þetta. Sem ég held það muni gera ... og glotta illyrmislega til móður sinnar um leið.