25.10.06

Morgunfýla

Ég er ennþá alveg hreint arfafúl út í bankann minn. Var búin að skoða upplýsingar um öll íbúða- og fasteignalán einstaklega gaumgæfilega, einmitt með þetta atriði í huga. Og hvergi á öllum vef KB-Banka er minnst einu orði á brunabótamat. Svo slengir ævilangur viðskiptabanki mann, sem hefur haft út úr manni milljónatugi undanfarin 32 og hálft ár, í alls konar skítagreiðslur, þessari skítugu gólftusku bara framan í mann eins og ekkert sé. Rannsóknarskip ætlar að athuga með sinn banka í dag og gá hvort hann er liðlegri.
Vonandi er það allavega einhver, því annars erum við bara í djúpum skít. Maður á náttlega aldrei að hlusta á neitt sem manni er sagt. Fasteignasalinn okkar sagði að "sumir" væru svegjanlegri og færu ekki eftir brunabótamatinu þegar um svo góða staðsetningu væri að ræða. (Enda gamli vesturbærinn huxanlega eina landsvæðið í landinu sem verðfellur líklegast aldrei að neinu gagni.) En hvað er hann var bara að ljúga, svosem eins og sölumenn gera?
Ég er algjörlega að huxa mig niður í hyldýpið með þetta.

Að auki komu skilaboð frá truntulega ungbarnasundkennaranum sem Habbý mælti með í gærkvöldi. Hún bauð Freigátunni að vera með á námskeiði sem er eftir kvöldmat þegar hún er venjulega sofnuð. Ég er kannski klikk, en ég ætla ekki að fara að halda krakkanum vakandi fram undir miðnætti, þvælast með hana úti í kulda og myrkri með blautt hárið, til þess að hún komist í sund. Konan tjáði mér (truntulega) að annar tími kæmi ekki til greina. Við vorum búnar að vera á biðlista frá í september.

Er búin að taka ákvörðun um að Freigátan sleppi formlegu ungbarnasundi. Enda stóðum við okkur mjög vel í því í sumar, á eigin spýtum. Og höfum ekkert efni á því.

Og ég er bara að drepa tímann, svona snemma morguns, af því að ég er að bíða eftir að viðtalstíminn hjá lækninum mínum byrji. Það myndi jú laga ástandið talsvert ef ég vissi eitthvað um hvernig mál stæðu með þessa þunglyndismeðferð sem ég er ekki byrjuð í, en heimilislæknirinn minn hefur ekki enn séð ástæðu til að gera það sem hann lofaði fyrir hálfum mánuði síðan.

Það er sennilega bara ég, en það eru óvenjumargar truntur í lífi mínu í dag. Vona bara að Karma sjái til þess að allir fái makleg málagjöld.

7 ummæli:

fangor sagði...

oj, ömurðir einar og það svona snemma dags. þetta bjargast vonandi allt saman enda eigið þið hjónakorn risastór innleg til góðs karma. svo það má blóta bankanum til helvítis.

Sigga Lára sagði...

Já, þetta er nú eiginlega bara að verða fyndið. Núna er ég að reyna að leysa leyndardóminn um hvar atferlismeðferðarkonurnar eru með aðstöðu... í framhaldi af því þarf ég að hringja í þær.

En þessum stað virðist haldið vandlega leyndum fyrir öllum öðrum í heilbrigðiskerfinu. Sniðugt.

Berglind Rós sagði...

Fasteignasalinn sagði okkur á sínum tíma að það væri hægt að fá lánað í öllum bönkum þegar væri komin botnplata, það væri sko ekkert mál að fá lánað gegn veði í henni. Það var hlegið að okkur í bönkunum!

Nafnlaus sagði...

má ég benda þér á Íbúðarlánasjóð sonur minn fékk lán það eftir að vinnustaður hanns neitaði honum um lán (KB-banki)
kveðja gua

Nafnlaus sagði...

Hef aldrei skilið ungbarnasund - mögulega af því ég hef ekki prufað það og á því byggjast sennilega fordómar mínir. En þeir ganga út á að ungbarnasund snúist fyrst og fremt um samveru foreldris við aðra foreldra því ekki snýst það um samveru barnanna við hvert annað. Á ungbarnasundsaldrinum eru ungbörn aðallega að æfa sig í einstaklingstengslum við sína nánustu og ekki tilbúin í mikil félagstengsl.
Af hverju fara foreldrar ekki sjálfir með ungbörn sín í sund þegar þeim hentar - og eiga kvolitítæm með barninu sínu neðansjávar. Það er gaman í sundi, líka þó það heiti ekki ungbarnasund.

The sagði...

Sundskólinn Svamli hefur verið með ungbarnasund í Grafarvoginum. Þar kaupirðu 10 skipti þannig að þið getið byrjað hvenær sem er og mætt í ykkar 10 skipti þótt það komi veikindi eða annað inní. Kennarinn er afbragðsgóður og aðstaðan fín. Drengurinn minn var miklu ánægðari þar heldur en á námskeiðinu í Árbæjarlauginn þar sem hann grenjaði út í eitt.
knrbxxem
Þórdís

Nafnlaus sagði...

Áts - jæts.
Ætli ég truntist ekki bara með í minum truntulega sundskóla enn um sinn. Þetta er nebblega ekki bara ungbarnasund. Eldey er búin að vera í sundskólanum í tæp sex ár (með einhverjum hléum þó) og Hekla og Katla í 3 ár. Alltaf með sama hópnum og agalega skemmtilegt og alveg hellingur af félagstengslum og hreyfiþroska, klukkan hálf sjö.