Helgi var eytt á haustfundi Bandalaxins á Selfossi. M.a. þetta gerðist:
- Lokaðist inni í lyftu við 6. mann. Þetta var reyndar svona nýmóðinsleg og gegnsæ lyfta, þannig að við gátum bara veifað þeim sem voru fyrir utan. Við sáum líka þegar maðurinn kom og ætlaði að opna fyrir okkur, gat það ekki í fyrstu tilraun og sagði þá: Bíðiði aðeins.
Það fannst okkur nú fyndið.
- Fékk powerpoint-heilkenni. Hér eftir kem ég aldrei til með að tjá mig neitt án kraftbendils. Það kom meira að segja upp hugmynd um að setja undirtexta í næsta leikstjórnarverkefni upp á glærur og hafa hann í bakgrunninum.
- Við Kraftbendill hönnuðum saman leiðbeiningar til hjálpar litlum og lösnum leikfélögum. Ég er voða stolt af því.
Auðvitað gerðist síðan fullt og hellingur af öðru. Heilinn minn er enn í suðupunkti yfir öllu sem mig langar að gera í vinnunni, auk þess sem aðalstjórn Hugleiks var öll á staðnum á tímabili og hún ákvað eitthvað... þarf að rifja upp hvað það var.
Leikfélag Selfoss er höfðingi heim að sækja. Það er greinilega gaman í þeirra bekk. Mikið af dásamlegu fólki , fleiri kynslóðir af paunkurum og allskyns. Þeim til heiðurs er ég með þjóðsöng Leikfélags Selfoss á heilanum í dag:
Geng ég bæjargöngin inn
og rek ég mig á vegginn.
Ég er eins og jólatré
því ég er í hreppsnefndinni.
(Ykkur finnst þessi texti kannski ekki meika neinn sens? Engar áhyggjur, hann gerir það ekki.)
Og svo er þunglyndispistillinn minn búinn að fá þessar líka fínu viðtökur. Takk fyrir þær. Ég fór nú bara næstum að grenja. Og ég vil benda mönnum ennfremur á bloggið hennar Heiðu, en hún er einmitt að hefja þunglyndismeðferð og ætlar að vera dugleg að skrifa um þann bardaga.
2.10.06
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli