Það hefur verið ljóst í nokkurn tíma að ég hef tapað eftirsókninni eftir kúlinu. Þetta er ekki afleiðing fjölskyldunar vorrar, giftingar og barneigna, heldur hluti orsakar. En það er allt önnur saga.
Fyrr í vetur játaði ég ílöngun í hillusamstæðu.
Það bar til um þessar mundir að fjölskyldan fluttist búferlum. Í minna og sætara húsnæði, sem fylgdi minni og sætari eldhúsinnrétting. Ljóst var að puntglasaeign fjölskyldunnar komst hreint ekki fyrir í hinni mínímal eldhúsinnréttingu. Við Rannsóknarskip skipulögðum afmarkað svæði í stofurými þar sem mætti sem best koma fyrir skáp með gleri, fyrir puntglösin og fleira tilfallandi. Og leitin hófst. Hún barst víða. Nokkrir þóttu líklegir, en enginn almennilega útvalinn að svo komnu máli.
Víkur þá söguna til fólksins uppi. Uppi hafa staðið yfir miklar framkvæmdir og sýndist okkur helst hljóta að vera búið að henda öllu innanstokks, á því sem maður var að rekast á í stigaganginum. En lengi er von á einum. Fyrir nokkrum dögum rákumst við á, bókstaflega, forláta skáp með gleri. Var honum snyrtilega saman pakkað, og þótti okkur víst að hann ætti sér áfangastað. Gríntumst samt með að við ættum að gá hvort við mættum ekki bara hirða hann. Héldum við því áfram í hvert sinn sem við tróðumst framhjá honum næstu daga. Þar kom að að Rannsóknarskip rakst á eigendur skápsins í stigaganginum og bar upp erindið. Í ljós kom að skápafmánin var á leið á haugana og var okkur mikið velkomið að hirða hann og spara fyrri eigendum ferðina. maðurinn uppi hjálpaði Rannsóknarskipi meira að segja að bera hann á sinn stað.
Nú erum við sumsé orðin stoltir eigendur að þessum fínasta skáp með glerhurðum, sem kostaði ekki krónu, en lætur okkur samt líða eins og við séum þvílíkt ríkt og fínt fólki í vesturbænum, þegar við sjáum hve hann ljómar fagurlega, við hliðina á píanóinu. (Sem við erum með í láni.)
Þetta var saga af skáp með gleri.
Tökum þá upp allt annað hjal, og segjum frá flónsku húsmóðurinnar.
Ég ætlaði, í fyrsta sinn í aldir, að senda jólakort. Þar sem ég átti svo fína mynd af krökkunum til að setja á það. Skemmst frá því að segja að pöntunin sem fara átti til Hans Petersen (á síðustu stundu) fokkaðist eitthvað upp hjá mér, og ég fattaði það ekki fyrr en löngu síðar. Okkur Photoshop tóxt hins vegar að búa til mynd sem lítur út nokkurn veginn eins og jólakortið átti að verða. Hún verður birt hér á aðfangadag.
Ég lít þannig á þetta að ég sé að spara mönnum pappír til að geyma í geymslunni sinni og henda eftir 10 ár. Þeir sem haldnir eru söfnunaráráttu geta prentað út fyrir eigin vélarafli.
22.12.06
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Híhí, til hamingju með skápinn, það er eins og systir mín sagði einu sinni, merkilegt hvað veraldlegir hlutir geta veitt manni mikla ánægju :-)
Skrifa ummæli