Nennti ekkert að skrifa í gær, af því að ég var úldin. Vinnustaðurinn minn laðar stundum að sér erfiða viðskiptavini, ekki síst rétt fyrir öskudag. Þar að auki átti ég einkar slæman hárdag.
Í dag er ég líka pínulítið snúin. Ég er alveg hreint forpokað og alfarið á móti því að börn fái að fara á nammifyllerí á öskudaginn. Þetta með búningana og sönginn er nú bara sætt... nema maður sé svo óheppinn að vinna í búð. En, að þau þurfi endilega að koma heim með 2-3 kíló af nammi, sem þau troða í sig fyrstu dagana, og maður er síðan að finna á undarlegustu stöðum og henda það sem eftir er árs, finnst mér bara hreint ekki gott mál! Ég vona bara að fleiri fyrirtæki hafi byrjað á því sem sum byrjuðu á í fyrra, að vera með harðfisk eða "dót", í staðinn fyrir sykur- og gefviefnasprengjur.
Það var gripið til uppeldisaðferðarinnar "mútur" til að fá Smábát til að lofa að borða nammið ekki úti, heldur koma með það heim, þar sem það verður skammtað mjög naumt og skal etið undir ströngu eftirliti. Í staðinn fær hann tölvuleik að eigin vali. (Enda kemur hann til með að stunda heilmikla holla hreyfingu og útivist við að verða sér úti um allt nammið sem hann fær ekki að borða að hann má alveg hanga í tölvunni, smá.)
Rannsóknarskip deilir hreint ekki þessari andúð minni á þessum (ó)sið, enda ku báðir upprunnir fyrir norðan. Hann er á leiðinni út með Freigátuna að kynna henni vitleysuna. Grrrr. Jæja, kannski bara ágætt að annað foreldrið sjái um nasismann.
21.2.07
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Æi ég veit ekki - kannski væri ég sáttari við Öskudaginn ef hann væri sveipaður einhverjum fortíðarljóma. Mínar minningar ganga meira eða minna allar út á það reyna að beygja títuprjóna fyrir öskupoka - þar sem 9 af hverjum 10 brotnuðu - og fara síðan niður í bæ í einhverri múnderinu og slagveðri og þora ekki að stinga þessu í bakið á nokkrum manni.
Heima var alltaf grímuball. Og verðlaun fyrir flottasta búninginn. Það var ógurlega gaman.
Öskupokana vorum við aðallega að hengja hvert aftan á annað heima hjá okkur. Og það endaði yfirleitt í títuprjónsstungum og slagsmálum.
Hef svipaðar öskupokaminningar og Ásta, og sennilega voru þetta manns fyrstu saumaverk, að klippa niður mislit efni og afganga í allskyns skrautlega poka. Dagurinn sjálfur var ekki frídagur í mínum heimavistarskóla. Engir búningar og vesen, bara hengt í erg og gríð aftan á stelpurnar ... og mest þótti spennandi að koma sem flestum pokum aftan á kennara og starfsfólk.
Og svo þótti auðvitað safnaranum og endurnýtingarfíklinum mér alveg frábært að græða marga og allt öðruvísi poka á eigið bak. Úr nýjum efnum og í allt öðrum litum.
Skrifa ummæli