29.5.07

Frakk, sprakk

Samkvæmt Huldu er hundaskíturinn í Suður-Frakklandi á sínum stað. Enda erfitt að kenna gömlum hundi að... skíta.

En samt er öldin greinilega orðin eitthvað önnur en þegar ég bjó þar, uppúr aldamótunum. Í gamla daga voru mestu vandræði að ná sambandi við fólk. Menn virtust alls ekki kunna á tölvupóst. Ekki einu sinni fyrirtækin sem voru svo gjarnan með tölvuna mína í viðgerð. Og ekki var endilega fýsilegt að hringja ef franskan manns var, ja eins og mín, framan af. Svo öruggasta leiðin til að tala við einhvern var venjulega að staðsetja viðkomandi á kortinu og þramma svo af stað. Með þessa reynslu í huga sendi ég fyrirspurnir um einar 15 íbúðir í dag.

Bregður svo við að menn svara! Samdægurs! Yfir saklaust höfuð mitt rignir nú tilboðum. Allir vilja endilega leigja mér íbúðir, og það fyrir talsvert minna en ég reiknaði með. Í miðbænum, rétt hjá miðbænum, með görðum, kostum og kynjum, sumir bjóða meira að segja rimlarúm.

Og ég veit ekki hvaðan á mig stendur fárviðrið, man ekkert hver átti hvaða íbúð eða hvað snýr upp eða ofan. Sjitt.

Og, ég fékk flassbakk. Vitiði hvað ég var að gera síðast þegar leikritið mitt var að fara í Þjóðleikhúsið? Redda mér íbúð í Montpellier! Spúkí...

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er sennilega hægara að kenna hundum að skíta ekki, jafnvel gömlum hundum, heldur en frönskum eigendum þeirra að hirða drullumallið upp af götunni.