23.5.07

Get ekki sofið

þessar næturnar. Ætla hreinlega aldrei að leka út af á kvöldin. Ef þetta verður svona aftur í kvöld ætla ég að fara fram og skrifa eða eitthvað. Í andvökum mínum hef ég hugsað um atvinnuástandið á Vestfjörðum. Og lent á þanka sem er sennilega afar óvinsæll.

Þannig er að fyrir einum tuttugu árum síðan uppgötvuðu Íslendingar, og voru þar á eftir nær öllum þjóðum heims, að hægt er að éta fleira en rollukjöt og ýsu. Og hafa fleira en kartöflur og smjör með því. Menn fóru að vera með allskonar fordildir í matargerð og láta ofan í sig alls konar útlenskan óþverra. Það var nú eins gott, þar sem rollukjötið var að verða búið með allan gróður af landinu og þeir fáu fiskar sem eftir voru í sjónum orðnir einmana.

En það var svo skrítið, að þó fólkið væri hætt að éta kjetið og fiskinn, þá vildi það samt halda áfram að framleiða svoleiðis. Upp spruttu kjötfjöll og smjörfjöll og fiskfjöll. Og menn klóruðu sér mikinn í höfðunum yfir þessu. Og eru enn að. Þetta var, og er, svona eins og Litla gula hænan, öfugsnúin. Allir vilja finna fræið, mala kornið, baka brauðið, og allt það. En enginn vill éta brauðið. Það myglar bara.

Mér finnst menn ekki eiga skýlausan rétt á því að yfirvöld reddi þeim óbreyttri heimsmynd. Atvinnugreinar fæðast og deyja eftir því hver eftirspurnin er. (Í dag þýðir til dæmis ekkert að ætla að framleiða rafmagnsritvélar. En ég vona nú að fólkið úr rafmagnsritvélaverksmiðjunum hafi haft vit að að bíða ekki eftir örðum tækifærum í þeim geira...) Og að geta gengið að sömu verksmiðjuvinnunni alla ævi er engum manni hollt. Mig hryllir við því að búa í samfélagi þar sem næstum allir vinna í sömu verkmiðjunni. Og ég er orðin frekar andsnúin stóriðjunni. Ekki vegna þess hvað hún gerir náttúrunni eða útlitinu á landinu, heldur hvað hún gerir samfélaginu. Ég verð að viðurkenna að ég er ekkert sérstaklega hrifin af ýmsu sem ég sé vera að gerast í samfélaginu fyrir austan. (Ég held ég sé líka með langhund um verksmiðjusamfélög og stórfyrirtæki í hausnum á mér... en það er efni í annan hund.)

Oft er úr vöndu að ráða, í þessu lífi. Stundum fyrir marga í einu. Það sem mér finnst að hið opinbera ætti að gera er að kaupa óseljanlegu húsin af fólki sem vill fara annað. Ég hef enga trú á að hinar dreifðari byggðir eigi eftir að vera lengi í eyði eða sumarbústaðabyggð.

Þar kemur tæknivæðingin inn í. Með hverju árinu fjölgar störfum sem menn geta unnið hvar sem er. Þá þurfa menn bara að eiga tölvu og internet. Ég held nefnilega að hinar dreifðari byggðir eigi mikla framtíð fyrir sér, þegar fjölskyldufólk getur í auknum mæli tekið vinnuna með sér hvert sem er, og stjórnað því algjörlega hvar það býr. Og, þetta eru ekki bara störf fyrir einhverja svakalega langskólamenntaða einstaklinga. Tæknibúnaður er líka að verða einfaldari með hverju árinu.

Ég sé alveg fyrir mér að menn hefðu smekk fyrir því að búa einhversstaðar þar sem þeir geta haft þrjár hænur, fjórar kindur og skroppið og veitt grásleppu í soðið um helgar. Ég hlakka til að geta valið úr svoleiðis samfélögum á Vestfjörðum.

Fólk verður að haga búsetu eftir atvinnu, í bili, en ég held að menn verði að átta sig á því að það er hægt að gera fleira en eitt. Ef menn kunna bara að gera eitt, sem er ekki lengur í boði, þurfa menn að læra eitthvað annað. En það finnst mér líka að ríkið ætti að styrkja.
En ég held að þetta þýði að ég sé algjörlega á móti því að ríkið sé að niðurgreiða landbúnað og sjávarútveg sem slíkan.

Þetta er nú sennilega óvinsælasta skoðun sem ég hef haft lengi.
Líklega eins gott að ég er ekki að fara að heimsækja Sverri mág um helgina. ;-)

2 ummæli:

Árni Friðriksson sagði...

Ég vona bara að Einar K. Guðfinnsson sé ósammála þér.

Nafnlaus sagði...

Ég lá við að lesa en nú sest ég upp.

Í langan tíma hefur megnið af fiskinum verið flutt út - eða hvenær sástu síðast þorsk í fiskbúðinni? Jæja, ég þori reyndar ekki að sverja fyrir það.

En ég vann í fiski eins og flestir Íslendingar á einhverju tímabili og þorskurinn var almennt pakkaður í fimmuna og sjöuna og sendur utan. Hann skapaði þannig verðmæti.

Og það stendur enn til að veiða fiskinn, þessi verðmæti færast bara á æ færri hendur. Og miðað við framseljanlegan kvóta er gert ráð fyrir að feiti þorskurinn sem spriklar fyrir utan Flateyri eða Grímsey syndi núna t.d. til Grindavíkur eða Sandgerðis. Hann er meira að segja búinn að fá reisupassann á Akureyri sem maður hefði þó haldið að væri öruggt pleis.

Auðvitað á fólk að þróast í störfum og það á ekki að halda uppi byggð þar sem fólk vill ekki vera, það hangir bara ekki saman við græðgi útvegskónganna.

Og jafnvel þótt þýðendur gætu búið með nettenginguna sína á Þingeyri (sem er ekki enn búið að tryggja vel) vildu þeir samt geta farið út í búð og keypt seríos eða leyft börnunum sínum að vera í leikskóla.

Og vísiterandi þýðendur vilja líka geta flogið á áfangastað og lent af öryggi.

Ég vildi ábyggilega segja langtum fleira en þá þyrfti ég að opna annan glugga. Ég vonast samt til að sjá einhverjar breytingar í landbúnaði sem koma þá neytendum til góða, ekki örfáum mjólkurkvótagreifum sem sameina hist og her í nafni hagræðingar - og græða bara á því sjálfir.