21.5.07

Urrandi framkvæmdagleði...

Það var einhvern veginn þannig að við fluttum í miðju annríki. Svo var allt gert "fínt" fyrir jólin, en við kláruðum eiginlega aldrei að koma okkur fyrir. Og svo tekur það hlutina nú venjulega nokkur ár að finna sína réttu staði. (Giska ég á. Ekki að ég hafi nokkurn tíma búið á sama stað í nokkur ár.)

En nú undir kvöld fékk ég andann yfir mig og skipti um herbergi á nokkrum kommóðum. Ég held það hafi bara verið hið bezta mál og ég er farin að hugsa mjög um margt sem væri gaman að gera við heimilið. (Einmitt rétti tíminn, núna þegar ég fer að sjá fram á sumarútlegðina.)

Í dag sá ég hundaskít á Laugaveginum. Þá sjaldan ég sé svoleiðis langar mig að vita hvað er títt í Montpellier. Ég á alnetið og svo brá við að ég rakst á "handbókarvef" sem búið er að gera um þann bæ. Sem er frábært. Þá hef ég eitthvert að vísa fólki sem leitar til mín eftir upplýsingum um það. (Sem gerist einstöku sinnum.) Svo er pöbburinn minn kominn með þennan fína vef.
Þá þarf ég aldrei að fara þangað aftur. Sem er nú gott. Það er svo ógurlega úrleiðis, og ef maður er að þvælast í Suður-Frakklandi á annað borð, þá er nú margt meira spennandi að skoða en þessi höfuðborg hundaskítsins.

Hvernig virkar annars þetta myspace? Ég ætlaði bara að skrifa eitthvað fyndið á mæspeisið hjá O'Carolans, en þá er það ekki hægt nema maður sé með svoleiðis sjálfur. Og eins og maður nenni því eitthvað.
Isssss...

Engin ummæli: