10.5.07

Skemmtiþynnka

Þegar aldurinn færist yfir fara ýmsir kvillar að gera vart við sig. Greinilegar en áður. Eitt af því sem ég hef orðið meira og meira vör við á undanförnum árum er skemmtiþynnkan. Hennar verður jafnan vart eftir náið samneyti við fólk sem hittist í tengslum við Bandalag íslenskra leikfélaga. Á slíkum samkrullum, hvort sem það heita aðalfundir, haustþing eða leikhústengd námskeið, er reyndar unnið heil ósköp. Allan daginn frá því syndsamlega snemma morgnanna og fram undir kvöldmat er hamast við fundahöld eða nám, en saman við þetta er ógurlega gaman. Það er gaman að djöflast í áhugamálinu sínu við fertugasta mann. Fá hugmyndir, framkvæma hugmyndir, slátra hugmyndum sem mönnum þykja vondar, og allt það.

Einn mesti lúxusinn við svona samkomur er síðan, maturinn. Í þartilgerðum matstal, hvar sem maður er staddur á landinu, birtist matur á matmálstímum. Maður þarf ekkert að hugsa um hann. Hvorki fyrir eða eftir. Við þessi töfrabrögð léttast lundir manna svo gríðarlega að í kringum hvern matmálstíma heyrir maður oftast hátt í hundrað fynd. Svo maður minnist nú ekki á allt sem maður heyrir gjarnan langt fram eftir kvöldi, og stundum fram á nótt, sé maður duglegur. Sem sagt, gríðarlegt óverdós af skemmtan. Og eftir 8 ára þvæling í kringum þetta alltsaman er ekkert lát á því hvað þetta er gaman.

En eftirá er maður líka hálftussulegur. Eftir að hafa skemmt sér af svona ógurlegu afli er maður vissulega með sumar rafhlöðurnar algjörlega endurhlaðnar. Af öðrum er búið. Alveg. Skemmtibatteríin mín eru til dæmis tóm, núna. og má þakka fyrir ef mér dettur eitthvað sniðugt í hug yfir Júróvísjón, og er þá nóg sagt. Enda kannski bara ágætt að nú liggi aðallega fyrir að klára helv... fundargerðirnar, og ekki þurfa þær nú að vera skemmtilegar.

En ég verð samt að láta fljóta með einn hroðalega góðan brandara sem ég heyrði um helgina.

Spurning: Hvað er ógeðslegra en að finna plástur í kaffinu sínu?

Svar: Helförin.

2 ummæli:

Þráinn sagði...

Hæ...mér finnst einhvernveginn eins og ég sé smá sekur um þessa ofurþynnku þína...

Nafnlaus sagði...

Þú með þitt Jóðlíf?
Það er auðvitað bara viðeigandi að þú skulir svo fá egglos.;-)