12.6.07

Húsbóndalausa heimilið

er allt að komast í röð og reglu. Fyrstu dagana var Móðurskipið á barmi taugaáfalls og geðstrops af álaginu að vera einstæð móðir í nokkra daga. (Tekið skal fram að Móðurskip er alvarlega ofdekrað af heimilislegum og óstjórnlegum hæfileikum Rannsóknarskips til feðrunar.) En í dag virðist kominn vanagangur. Allavega er klukkan rúmlega níu, búið að ganga frá eftir kvöldmatinn í gær, fæða og klæða mig og sig og stefnan tekin út. Smábátur og Systurskútan sofa reyndar enn á sín grænu eyru, en Móðurskipið er nú aldeilis búin að hella uppá og leggja á borð fyrir m0rgunmatinn, svo þau þurfi nú örugglega ekkert annað að gera en að gúlla í sig þegar þau rakna úr rotinu. (Eins og mamma mín gerði alltaf.)

Stefna okkar Freigátu er annars tekin á einhvern róló. Það eru staðir sem hún fær aldrei nóg af, og alltaf kostar talsverðan hávaða að ná henni þaðan, sama hvað við erum lengi. Hún verður hroðboðslega hamingjusöm þegar hún byrjar á leikskóla í haust og fær slíkan til heimilis- og einkanota að vild, flesta daga. Svo er sólskin, svo ég ætla að taka með mér eina ólesna Agöthu sem ég fann, mér til mikillar gleði, í gær.

Ein saga að lokum: Freigátan átti óvenju órólegan dag í gær. Hún stoppaði aldrei, ekki einu sinni til að sofa, og gerði eingöngu það sem hættulegt var. Hún er núna 16 mánaða, hefur fulla hreyfigetu, en skilur enn mjög lítið um orsakir eða afleiðingar hlutanna. Ég ávað að gera tilraun, þegar ég var komin með nóg, og prófaði að slá létt á hendina hennar, um leið og ég sagði: "Má ekki!". Hún horfði á mig, ásökunaraugum, benti á hendina á sér og sagði: "Æ, æ!" Oft og lengi. Ég beið bara eftir að hún hringdi á barnaverndarnefndina. Og skilaboðin komust greinilega engan veginn til skila, því tveimur mínútum seinna var hún aftur farin að afklæða geisladiska föður síns.

Engin ummæli: