2.7.07

Enn uti

Íslenska lyklaborðið mitt virkar alveg. Fyrir utan að það vill alls ekki skrifa lítið Ú. Og hvers vegna franskar konur fitna ekki? Tja, mig hefur allavega gripið sama lystarleysið og ég átti við að stríða síðast þegar ég var hér. Nú skil ég og man hvers vegna ég fór niður í 50 kíló þá. Hef allavega ekki haft lyst á helmingnum af því sem ég ætlaði að troða í mig hér.

Áðan, um hádegisbil, ætluðum við aldeilis að fara að versla. Brá svo við að það er mánudagur, en þá nenna Frakkar ekkert að opna búðir fyrr en einhverntíma mjög seinnipartinn. Ég furðaði mig í augnablik á því hvers vegna ég vissi það ekki. Áttaði mig svo á því að ef ég hef verið komin út á meðal manna fyrir tvö á mánudegi á Montpellier-árinu, hefur það nú verið mjög alvarleg undantekning.

Svo ég svari Jóni, neim við hefðum alveg viljað sjá aðeins meiri hitabylgjur. Eiginlega er búið að viðra best til verslanaferða... sem hafa reyndar verið stundaðar óspart. Svo erum við búin að skreppa og skoða Avignon og fara á ströndina í Grande Motte og leika okkur ýmislegt fleira um nágrennið.

Jenný, ég var að skoða minn póst áðan, Rannsóknarskip skoðar sinn á eftir, en menn verða að halda áfram að eiga vantalað við okkur, allavega fram á fimmtudag, og sennilega fram yfir næstu helgi, þar sem Rannsóknarskip siglir beina leið norður til söngs í brúðkaupi þegar við komum heim.

Varðandi sjónvarpsgláp þá fær Freigátan nú minnst að horfa á eitt eða neitt. Fjölskyldan hefur farið þvílíkum hamförum í DVD-innkaupum að á hverju kvöldi er slegist um hvað skal vera á dagskrá. Barbapapa er helst hafður í hávegum á morgnana, þegar aðrir heimilismenn reyna að freista þess að fá að sofa örlítið lengur, en hann heldur nú sjaldan í neinar 20 mínútur, þrátt fyrir góðan vilja og mútur í kexformi.

Í örðrum fréttum er það helst að í borginni þar sem ég hélt ég þekkti engan lengur er bókstaflega ekki þverfótandi fyrir fólki sem ég þekki. En mig minnti endilega að allir hafi verið á leiðinni burt, stuttu í kjölfarið á mér. Sumir eru farinir og komnir aftur. Og enn eru allir á leiðinni burt. En maður veit nú ekki alveg hvort maður á neitt að trúa þessu lengur. Flestir eru auðvitað orðnir giftir og meira eða minna óléttir. Sá faraldur virðist hafa gengið víðar en á Íslandi.

En nú fer að líða að lokum þessa sumarleyfis hér. Á miðvikudag siglum við heim, eyðum reyndar mestum hluta dagsins í Lundúnum og komum seint heim, í stóru íbúðina okkar, í landinu sem ilmar ekki af hundaskít, þar sem allir tala almennilegt tungumál, og það verður nú bara aldeilis ljómandi.

Og nú er best að boða Rannsóknarskip á svæðið og bjóða honum að gá í póstinn sinn.

Bonsjornei.

3 ummæli:

Hugrún sagði...

Búin að kaupa nýtt dót í dótakassann hjá mér þú lætur mig vita ef þig vantar pössun á meðan þú tekur upp úr töskunum.
Fór á tónleikana með ljótu hálfvitunum sem eru nú ljótu snillingarnir

Nafnlaus sagði...

Það verður gott að fá ykkur heim úr hundaskítnum;-) Vona að síðustu dagarnir verðir jafn ljúfir og þeir sem liðnir eru. Knúskveðjur á ykkur öll!

Nafnlaus sagði...

Hlakka til að fá þig heim ljúfan, það er hálf einmanalegt í vinnunni án þín. Bestu kveðjur til allra og gangi ykkur vel heim.