1.11.07

Lag

Gleðilega messu allra heilagra. Og Hrekkjavöku í gær. Nóg af útlenskum stórhátíðum.

Í dag er Rannsóknarskip í vetrarfríi og er að verða langt kominn með að kippa öllum heiminum í lag, fyrir hádegi. Hann fór til háls- nef- og eyrnalæknis í morgun, af því að ég heimtaði það. Fyrirfram var hann nú eitthvað að halda því fram að hann hefði ekkert að segja við lækni, af því að hann er nú ekki fár-fárveikur, akkúrat í dag.
Ég sagði honum að segja lækninum til dæmis frá stíflunni sem er búin að vera í nefinu á honum síðan 1992. Og svo frá öllum flensunum, hóstunum og sleppunum í haust.
Eitthvað hefur hann nú sagt gáfulegt, heim kom hann allavega með fullar hendur pensillíns og steranefspreys þar sem á að reyna að flæma út óbjóðinn í eitt skipti fyrir öll. Og læknirinn ku hafa úrskurðað nefið á honum sem "ofnæmislegt".

Ekki var látið þar við sitja í lagfæringum. Núna er hann með bílinn í smurningu, olíu- og dekkjaskiptum. Að því loknu huxa ég ekki loku fyrir það skotið að ég drífi hann með mér í IKEA og við fjárfestum í hillum og þá hættir haugur af bókum að vera heimilislaus og gangurinn okkar verður allur fínni. Ekki loku fyrir skotið að fleira verði skoðað. Ekki oft sem við hjónin komumst barnlaus í þessa ágætu búð. Best að gera nú lannngan lista.

Þá verð ég nú aldeilis búin að eyða deginum í annað en að læra. Er enn ekki komin að neinni niðurstöðu um valkvíðann frá í síðustu færslu svo enn er galopið fyrir tillögur, ef menn nenna að hafa þær.

Engin ummæli: