6.1.08

Fyrsta morguninn heima

byrjaði Freigátan á að spyrja um kisuna, me me og Sverri. Það var þó fljótt að jafna sig þegar komið var fram og heilsað upp á allt nýja dótið og gamla dótið í bland.

Hún er annars öll að jafna sig af skíthræðslunni sem fór svo ógurlega með hana fyrir jólin. Reyndar eru kúkableyjuskipti ennþá óvinsæl, og þarf mikinn söng og sálfræði til að fremja svoleiðis, ennþá. (Þess vegna heyrist hún núna alveg eins söngla: "Taka kúkinn, taka kúkinn, og svo snúa þeir sér í hring.) Og svo þarf að kveðja kúkinn með virktum. Í gærkvöldi sagði ég til dæmis: Jæja, nú er kúkurinn farinn í klósettið.
Freigáta: Já, bless bless. Farinn að sofa.
Í sveitinn var litla kisan oft lokuð niðri í herberginu sínu, öryggis síns vegna. Og Freigátunni var sagt að kisa væri sofandi. Það sama átti við um kindurnar þegar enginn nennti að sýna henni þær. Svo Freigátan heldur núna líklega að flestir og flest sem ekki er í augsýn sé sofandi.

Nóg um kúk og búfénaðarsvefn.

Ég er búin að komast að því að ég er með einhvers konar bumbuduld. Mér finnst ég ekkert vera með neina og verð svaka hissa þegar ég hitti einhvern sem fattar að ég sé ólétt... Í hvert skipti sem ég rext á spegil sé ég að þetta er mikill misskilningur, en ég gleymi því um leið og ég lít úr honum.

Mér finnst Freigátan hafa tekið svakalegan þroskakipp núna seinnipart jólafrís. Hún er allt í einu orðin miklu duglegri að leika sér sjálf og gerir meira að segja stöku sinnum það sem maður biður hana um. Svo gerðist líka það undarlega, hún er farin að samþykkja það þegar maður segir nei. En það er nú búið að kosta allavega smávægilegt frekjukast undanfarna mánuði.

Hins vegar virðist hún ætla að erfa alla matvendni móður sinnar í öðru veldi. Það eru orðin mikil vandræði að koma í hana bæði fiski og kjöti. Hins vegar er einn uppáhaldsmatur sem klikkar aldrei. Slátur! Og mamman, sem ku ennþá vera lág í blóði, ætti víst líklega bara að bíta í þann súra kepp að líklega ætti að hafa stundum slátur í matinn. Við hamingju Rannsóknarskip. Líklega minni hrifningu hjá Smábátum.

Ef friður helst ætla ég núna að skella einhverjum myndum og linkum inn í jólakortið og áramótapistilinn.

Engin ummæli: