En, volla, greinilega hefur hugboð mitt verið rétt og ráterinn borið ábyrgð á hæggeni alnetsins þráðlausa á heimilinu. Núna ferðast maður um netheima á hraða eldingarinnar auk þess sem það er mín trú og vissa að ekki þurfi að trítla fram á gang og slökkva og kveikja aftur á kvikindinu tvisvar á dag. Mikil framþróun í tækni og samskiptamálum heimilisins.
Annars er allt að komast í eðlilegt horf á heimilinu. Hraðbáturinn er alltaf jafn vær og góður, sefur bara og borðar og ég er ekki frá því að maður sjái hann stækka. Freigátan var svolítið lítil í sér fyrstu dagana, en hún er öll að verða sjálfri sér lík og elskar litla bróður sinn alveg út af lífinu. Svo það þarf aðeins að passa hana. Annars fengi sá litli sennilega svipaða meðhöndlun og kettlingurinn í sveitinni um áramótin. Smábáturinn er í löngu helgarfríi fyrir norðan og kemur heim í kvöld.
Rétt að segja frá því að við erum búin að leggja drög að norðurferð um páskana. Amma-Freigáta (sem er farin austur aftur) er búin að panta fyrir okkur stóra orlofsíbúð á Akureyri, þar sem þau afa og ömmuhjónin frá Egilsstöðum ætla að vera hjá okkur og kannski eitthvað líka Hugga móða. Einhvern tíma á páskahelginni er síðan ætlunin að láta hann Hannes Blandon skíra litla Hraðbát í einhverri fallegu kirkjunni í Eyjafirðinum. Og það verður ekkert sörpræs aukalega í þetta skiptið. En það verða óneitanlega svolítil tímamót í því að hafa svo góðan slurk úr fjölskyldum minni og Rannsóknarskips á svipuðum slóðum á sama tíma. Þó eitthvað komi nú til með að vanta í systkinahópana okkar beggja, sem endranær. En svona er að eiga stórar fjölskyldur, sigldar og siglandi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli