16.2.08

Æ fíl prittí

Um daginn fór ég að ráðum ljósmæðranna og fór alein í örstutta gönguferð. Þetta krafðist talsverðrar skipulagningar. En tækifærið sýndi sig að kvöldlagi í vikunni þegar Rannsóknarskip var að svæfa Freigátuna og Hraðbátur svaf á sitt græna svo ég gat laumað honum inn til þeirra og skroppið út í 10-11. (Fór að sjálfsögðu enga erindisleysu.)

En ástandið utandyra kom mér nú bara í opna skjöldu. Þetta var um hálfníuleytið á fimmtudaxkvöldi og á leiðinni heyrði ég skrílsleg partílæti úr einu húsi. Og í portinu við hliðina á búðinni stóð alvarlega útúrdópaður unglingur sem virtist varla með hálfa meðvitund og svona meira hékk bara á löppunum. Nú fer maður að huxa sér alvarlega til úthverfanna.

Ég er annars farin að hlakka mikið til að geta farið að hreyfa mig og gera hluti. Enn sem komið er þarf ég nú samt að sofa alveg fáránlega mikið og mér finnst ég ekkert koma neitt miklu í verk. En það er einhver svakalega athafnaþrá inní mér sem er alveg að fara að brjótast út. Á allra næstu vikum, spæ ég. Enda þarf að fara að skoða stöðuna á skólaverkefnunum. Og fleiru.

Enda er vorið alveg að koma. Snjórinn virðist vera á hröðu undanhaldi og það er farið að verða bjart næstum fram að kvöldmat! Freigáta og Rannsóknarskip fóru á róló í morgun þar sem mesta orkan ku hafa farið í að útskýra fyrir henni að ekki væri heilsusamlegt að drekka vatn úr pollum þar sem fuglarnir kúka í þá.

2 ummæli:

Þórunn Gréta sagði...

Það held ég að þú komist ekki hjá svona sjónum þrátt fyrir brottflutning til úthverfanna...

Elísabet Katrín sagði...

Isss...allt í lagi að drekka úr drullupollum ;) styrkir ofnæmiskerfið ;)eða er það ónæmiskerfið...what ever, hlýtur að styrkja þau bæði...knús til ykkar allra :)