6.2.08

Dagur 4.

Móðurskipið var duglegt að leggja sig í dag, en var ekki alveg nógu iðið við það í gær. En það kom nú ekkert að sök. Mjólkurframleiðsla orðin samkeppnishæf við Mjólkurbú Flóamanna og allt gengur í ljómanum. Amman kvartar yfir að hafa of lítið að gera, svo nú þarf að finna handa henni verkefni, annars heimtar hún tvíbura næst. En við fáum nú víst bara að hafa hana fram á helgina og Freigátan er til dæmis í fríi í leikskólanum á föstudag, svo á eftir að senda hana út að versla með Huggu móðu, svo vonandi leiðist henni ekkert mikið.

En litli maðurinn sefur bara og sefur og sefur á milli þess sem hann drekkur. Var einmitt farin að skrifa þessa færslu, meðan Rannsóknarskip var að baða Freigátuna, og krossbrá þegar allt í einu fóru að heyrast hljóð úr vöggunni. Ég er sem sagt strax farin að gleyma honum. En ljósmóðirin sem heimaþjónustar okkur er svaka ánægð með okkur og man aldrei eftir neinu til að segja okkur, og við munum aldrei eftir neinu til að spyrja hana að, svo við erum nú almennt bara í einhverju spjalli með henni. En á morgun ætlum við að rifja upp Böðun.

Og ég var að frétta af að prinsessa Siggudísar og Einsa væri mætt á svæðið og óska þeim innilega til hamingju með það. Nú bíður maður bara eftir myndum og málum á blogginu hennar.

Börnin hrynja líka úr sundfélögum mínum þessa dagana. Það koma fréttir af einum eða tveimur í hverri viku, og gjarnan myndir með þannig að maður er farinn að eiga ógurlega margt fallegt í pósthólfinu sínu. En sundfélagarnir sem stofnuðu póstgrúppu einhverntíma í haust telur uppundir 20 manns og í þennan hóp hefur nú fæðst ein eða tvær stelpur og örugglega tíu strákar. Einhver smá slagsíða á þessu.

Er annars, að ég held, búin að afboða allt óléttu-  sem ég ætlaði að gera í þessari viku. Þá er bara eftir að skrifa mergjaða og ítarlega fæðingarsögu til að senda henni Auði í Lótusjóga. Svoleiðis les hún síðan fyrir meðgöngujógakonurnar, og það er offfsalega gaman að hlusta á þær. Og verðlaunaskáldið hlýtur að geta barið saman sæmilega áheyrilega sögu.

Engin ummæli: