4.2.08

Ofurlítill Hraðbátur


Já, það er nú fyrst í fréttum að það er bolludagur, og ég er akkúrat hætt að vera bolla! Eins og áður sagði spýttist Ofurlítil Duggan í heiminn, öllum að óvörum, í gærmorgun, og reyndist vera karlkyns og fær því Bloggnefnip Hraðbátur. (Sem á -örugglega oft eftir að verða mikið öfugnefni þar sem hann sýnir þess strax greinileg merki að hafa lyndiseinkunn Rannsóknarskips. Rólegheitamaður, sem sagt.)

Úrdráttur úr fæðingarsögu:
Eins og sást á misvísandi færslum frá kvöldi og nótt 2. - 3. feb. bar sóttin heldur brátt að. Þrátt fyrir einhverja fyrirvaraverki dagana áður, þá áttum við nú ekki neitt von á barninu í heiminn strax. Alla fæðinguna og dvölina í Hreiðrinu var að rifjast upp fyrir mér fleira og fleira sem enn er týnt í geymslunni, óþvegið, óleyst skipulaxmál, og þannig. Amma-Freigáta kemur í kvöld og verpur hjá mér hérna út vikuna, og mér súnist bara verða nóg að gera hjá okkur vip fæðingarundirbúning.

Allavega. Við vorum mætt uppá fæðingardeild um 2-leytið um nóttina. En við skoðun kom í ljós að það var ekkert að gerast (hálfur í útvíkkun), þrátt fyrir brjálaða verki á 3 mínútna fresti. Ljósmóðurinni þóttu þessir verkir þó of miklir til að geta verið plat (auk þess sem ekkert var að gera hjá þeim) þannig að við vorum sett á "hóld" fengum að bíða og sjá til í tvo tíma til ap gá hverju yndi fram. Máttum alveg fara fram og horfa á sjónvarpið eða labba um en ég hafði nú ekki alveg heilsu til þess, þannig að við vorum bara inni á fæðingarstofu þar sem ég rölti á milli verkja og ruggaði mér í mjöðmunum og Rannsóknarskip stóð sig vel í verkjanuddi og dottaði á milli.

Klukkan 5 var tékkað á málunum og þá var nú alveg eitthvap smá að ske (3 í útvíkkun) svo við vorum formlega innrituð í fæðingu og ég fékk að fara í bað. Við vorum á stofu með riiiisastóru baði og það var ofboðslega þægilegt ap svamla í því. Svona framanaf. Sóttin fór þó hratt vaxandi og um sjöleytið vældi ég í örvæntingu á ljósmóðurina "fer þetta ekki að verða búið?" En miðað við fyrri reynslu vorum við Rannsóknarskip auðvitað viss um að við ættum einhvern hálfan sólarhring eftir.
Ég fór uppír af því að mér var orðið heitt og óglatt og í ljós kom að allt var bara tilbúið til útspýtingar og snáðinn var fæddur 24 mínútum síðar.


Svona var nú mamman sæt, alveg nýborin

Við vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið.
Það fyndna er að eftir hina martraðarkenndu fæðingu Freigátunnar spratt ég upp og var tilbúin að fara að skipuleggja næsta erfingja. Eins og ekkert væri. Þetta yrði allavega aldrei verra næst. Rannsóknarskip var hins vegar harður á því að næst yrði fyrirframpantaður keisari, ef samningar næðust um frekari barneignir á annað borð. Sem var sko ekkert víst.
Núna væri Rannsóknarskip til í að ég fæddi hálft fótboltalið í viðbót. Ég er hins vegar til í að ræða ættleiðingu, ef okkur langar í fleiri, eftir einhver ár. Sennilega vegna þess að þetta var jú líklega eins "þægileg" fæðing og hægt er að huxa sér... Og ég jógaði hana þvílíikt og ljósmóðurinni þótti við ótrílega flínk og hún þurfti næstum ekkert að gera, það þurfti næstum ekkert að sauma og engin verkjalyf eða neitt. (Ég hafði ekki einu sinni tíma til að læata mér detta verkjameðferðir í hug.)
En þetta var nú samt frekar óþægilegt og í dag er ég ekki alveg viss um að ég nenni aftur...
athugum nú samt að drengurinn er víst bara fæddur í gær.


Og svona lítur hann út

Allavega, allt hefur gengip eins og í lygasögu síðan. Við fórum í Hreiðrið í gærmorgun og þar voru feðgarnir ógurlega duglegir að sofa í allan gærdag. Ég var ekki alveg jafndugleg, hafði of mikið að gera við að liggja og horfa dolfallin á nýja sköpunarverkið. Greinilegt að þeir púluðu meira í fæðingunni en ég. Enda er það bara líklegt.

Ekki fannst okkur nú auðvelt að sjá hverjum snáðinn væri líkur, svona allavega til að byrja með. En á myndunum sýnist okkur hann nú bara vera nokkup líkur Freigátunni, eins og hún leit út þegar hún fæddist. Annars er hann ennþá með "kónhed", var lengi skorðaður með hnakkann á undan, eins og hann átti að vera, og er enn með smá bjúg í kringum augun. Svo svipmót er enn óljóst.



Bára frænka náði að koma í Hreiðrið og sjá frændann áður en hún fór aftur til útlanda. Athugist að Hraðbátur er í pólitískt röngum galla í eigu ríkisspítalanna.

Hann er annars búinn að vera duglegur að drekka á milli blunda, pissa kúka og prumpa og við erum á undan áætlun með brjóstagjöfina. Hann er líka búinn að pissa á bæði mig og pabba sinn og yfir næstum öll hrein föt sem hann átti. Núna sefur hann á sitt græna.
Við komum sem sagt heim í morgun, svo Smábáturinn hitti gripinn í fyrsta sinn þegar hann kom heim úr skólanum og Freigátan þegar hún kom úr leikskólanum. Hann sló alveg í gegn hjá þeim báðum. Freigátan ætlaði ekki að fá nóg af að klappa honum og kyssa og pota í nebbann, eyrun, tásurnar og allt hitt sem hann er með. Það ber ekki á því að hún sé afbrýðisöm út í hann, en hann er reyndar búinn að sýna henni þá tillitssemi að sofa nánast allan tímann sem hún er búin að vera heima. (Ég er tortryggin og hef hann grunaðan um að vera að skipuleggja að halda móður sinni rækilega vakandi í nótt.)

Sætu systkinin
Þannig er nú það. Mér finnst svakalega skrítið að vera allt í einu ekki lengur í bumbusundi og er alltaf að muna eftir fleiru og fleiru sem ég þarf að afpanta. Mæðraskoðun, meðgöngunudd og fleira. Ég fattaði líka að sennilega væri ég ekki að fara að mæta í skólann á morgun...
Allir eru annars fínir til heilsunnar, nema svolítið sybbnir.
Myndskreytingar eru frá síðasta einum og hálfum sólarhring.

10 ummæli:

Siggadis sagði...

Ohhh... knús í kross, þúsund sinnum - hann er dásamlega fallegur og þau öll systkynin... maður er bara með tárin í augunum :-) Innilega innilega til hamingju! *öfundardæs*

Sigurvin sagði...

Innilega til hamingju með strákinn! Ég verð nú að segja að mér finnst frekar vera svipur með honum og Árna en þér, Siggalára. Líkt og með Gyðu. Það hefur svo reyndar breyst. Hún er orðin alveg eins og þú þegar þú varst lítil :)Vona að allt gangi vel hjá ykkur núna í framhaldinu.

Berglind Rós sagði...

Já hann er alla vega líkur systur sinni á myndum, alveg yndislegur og þú ert líka aldeilis sæt og fín eins og þú hafir bara varla haft neitt fyrir þessu :-) En ég myndi nú taka varlega mark á rólegheitunum í stráksa, þeir eiga það til að sigla undir fölsku flaggi til að byrja með... ;-)

Nafnlaus sagði...

Ofsalega mikið til hamingju með hraðbátinn sætann og fínann.

Hrafnhildur/Habbý

Nafnlaus sagði...

Yndislegt!
Til hamingju með stubbinn.

Nafnlaus sagði...

Guð hvað hann er mikið krútt, algjört yndi! Ynnilega til hamingju :)

Svandís sagði...

Já, innilega til hamingju. Hann er dásamlegur og ég hlakka mikið til að knúsa ykkur. Ég tek undir með Berglindi Rós, þeir eiga það til að sigla undir fölsku flaggi þessir strákar. Um að gera að sofa sem mest á meðan það endist.

Annars má ég nú líka til með að minnast á hvað þú lítur með eindæmum vel út. Alls ekki eins og þú sért nýbúin að fæða barn. Frekar eins og þú sért nýkomin úr afslöppun. Ofurkona með mörgum stórum o-um.

Siggadis sagði...

Já, ætlaði einmitt að minnast á það, en gleymdi... þú lítur ekkert lítið vel út Sigga mín... alveg eins og megabeib!

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með krúttið og já njóttu þessa að pilturinn sé rólegur það gætir átt eftir að breytast
kram Dilla

Nafnlaus sagði...

kyss,kyss og knús til ykkar allra og endalausa hamingju. þetta eru fríðleiksbörn öll sem eitt