4.3.08

Úff og Urr

Í síðasta fæðingarorlofi var ég á deddlæni með eitt leikrit. Svo ætlaði ég líka að gera allan fjárann. Og hélt að það yrði nú lítið mál, Rannsóknarskip mikið heima og svona. Skemmst frá því að segja að ég rétt svo meikaði að skrifa þetta leikrit, með mestu herkjum. Og ekkert annað af því sem ég ætlaði að gera, gerðist. Og ætlaði að hafa næsta fæðingarorlof þvílíkt rólegt.

Núna hef ég ekki Rannsóknarskip ekki nema einstöku sinnum, og þegar hann er heima eru smábörnin tvö þannig að það er bara maður á mann. Og ég þykist ætla að skrifa leikrit sem á að vera tilbúið innan tveggja mánaða og ritgerð sem á að skilast 15. maí. Og það er fyrir utan allt sem ég ætla sennilega að skrá mig úr. Svo ætla ég að ritstýra tímaritinu Glettingi í sumar. Og í haust ætla ég líklega að gera eitthvað í skólanum líka, nota 10 aukaeiningarnar sem ég á inni, og vera bara á námslánum. Þannig fór um rólegheitin í því fæðingarorlofi.

Í dag var einn af þessum dögum. Það var eitthvað svo bilað að gera að ég var á náttfötunum fram yfir hádegi. Þegar ég loxins komst á lappir var ég enn ekki farin að borða neitt. Freigátan er enn lasin og Hraðbáturinn enn með hor og þau eru alveg miklu meira en tvöfalt starf í þessu ástandi. Þó ekki sé nema fyrir það að það er fullt starf að snýta og vera á horsugunni. Og svo fékk ég hálfgert örvæntingarkast. Ég hef ekki hugmynd um hvenær ég þykist ætla að framkvæma öll þessi skrif.

Annars er ég komin með hálfgerða innilokunarkennd. Það er kominn mars, en þá ætlaði ég þvílíkt að vera farin að hafa autt og vera komin með barnavagn og fara mikinn um allan bæ. Í staðinn er að koma meiri snjókoma á morgun og allir með hor. Og mig sem langar svoooo mikið í ný föt! Eitt af því sem gerist þegar maður kemst lítið út fyrir hússins dyr er nefnilega það að peningarnir bara hlaðast upp á bankareikningnum manns, engum til gagns. Svo var ég líka eitthvað að gramsa í fataskápnum mínum um daginn. Hann er fullur, það er ekki það, en í honum eru m.a. föt sem ég er búin að eiga síðan í menntaskóla. Sem og föt sem systur mínar, önnur hvor eða báðar, hafa átt. Í stuttu máli er ég orðin leið á öllum fötunum mínum, auk þess sem þau eru öll ýmist of feit eða of mjó. Mig langar í föt sem passa og ég er ekki búin að eiga í 10 ár eða meira. Og svo kemst maður ekki út!

Urrrr.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl, ég skil þig í botn, hef verið þarna á þessum sama stað. Best er að slaka bara á og fresta öllu sem á að gera, bara vera til með börnunum. Þegar uppp verður staðið, er þessi tími ótrúlega stuttur miðað við restina af ævinni. Nú eru börnin mín orðin stór og ég er farin að gera allt það sem ég frestaði...og það er æði :)Núna er ég þakklát fyrir að hafa haft þolinmæði til að snýta og skeina og gefa brjóst það var yndislegur tími sem kemur aldrei aftur en hann er ekki alltaf auðveldur....mundu bara að þú ert að leggja grunninn að lífi barnanna þinna, og þeir eru þungir steinarnir í grunninum....
bæ, bæ, vinkona úti í bæ

Sigga Lára sagði...

Heilmikið til í því. Enda er ég mest að pirra mig á því að hafa yfirhöfuð verið að bjánast til að ákveða að gera eitthvað annað en að vera heima að dúllast það sem eftir er árs. Alltaf skal maður þurfa að flýta sér of mikið.

Svandís sagði...

Þú átt alla mína samúð og þrátt fyrir að síðustu þrjú ár hafi verið ansi strembin svona félagslega séð að minnsta kosti þá hef ég verið þeirrar lukku aðnjótandi að geta gefið börnunum mínum allan minn tíma og þá umhyggju sem þau hafa þurft. Ég held að þegar frá líður muni það reynast ómetanlegt.

Ég vona bara að þú getir losað þig undan sem flestum kvöðum sem á þér hvíla svo þú getir bara notið lífsins með litlu börnunum.

Hlakka til að berja ykkur augum. Nú er Drengsi jafngamall og Gyða var þegar ég sá hana síðast :)

Lovjú,
Svandís