Freigátan hefur líka blásið út á alla kanta síðan Hraðbáturinn fæddist. Ég var að fara í gegnum fataskápinn hennar um daginn og þar var bara heill haugur sem var orðinn of lítill. Og í leiðinni komst ég að því að allt sem hún á núna er svo stelpulegt að Hraðbáturinn kemur ekki til með að geta notað neitt af því! Hún er líka orðin duglegri að borða, en var á tímabilinu óttalegur gikkur. En stundum tekur hún daga þar sem hún er Gyða öfugsnúna og gerir allt öfugt við það sem henni er sagt. Einn svoleiðis dagur var í dag.
Hraðbáturinn verður 4 vikna á morgun og 1 mánaðar hinn daginn. Hann þyngist um ca. 400 grömm á viku og er alltaf að verða mannalegri og mannalegri. Hann er farinn að vaxa upp úr minnstu fötunum sínum, en það eru reyndar bara föt á 50cm sem hlupu í þvottinum. Önnur föt nr. 50 duga enn og 56 eru enn svolítið stór. Hann er allur mjórri og fíngerðari en Freigátan var þegar hún var nýfædd. Hún var til dæmis með svakalega stórar hendur og fætur, en Hraðbátur er með rúsínutær og eldspýtuputta. Annars held ég að það sé nú mikill svipur með þeim.
En þetta stækkar allt ógurlega hratt. Áður en maður veit af verður þetta alltsaman orðið fermt og fullorðið. Eins gott að vera duglegur að leika við þau áður en þau fara að heiman.
ps. Ég náði að skrifa nákvæmlega 2 orð í handritið í dag. Þá vöknuðu þau bæði í einu.
3 ummæli:
hæ, gaman að fylgjast með fjölskyldustækkuninni ykkar og þróun hennar, vonandi gengur ykkur allt í haginn, bestu kveðjur, Röggi, Lóló & Co á Langholtsvegi 57.
p.s. Fjölmennum so á ættarmót 30. maí á Patró, þið mætið með allan flotann, nauðsynlegt að gera ráðstafanir sem fyrst varðandi gistingarmálin. Þetta er fjörug helgi þar.
Mér gengur illa að skilja þetta fatadæmi hjá ungubörnum, Sæborg er orðin of stór í stærð 50 á tveim náttgöllum en var að stækka í einn sömu stærðar og er hann mas rúmur til ermanna... það eru greinilega breskar, evróskar, bandaríkar og kínverskar stærðir í gangi á þessum markaði. Og ég sem hélt að sentimeterinn væri jafnstór um allan heim... :-/
Eins mánaða já, einmitt tíminn fyrir fyrstu gallabuxurnar. Búin að kaupa þær, kíki einhvertíma eftir vinnu í vikunni.
Skrifa ummæli