2.6.08

Komin heim

Vestfjarðaferðin og ættarmótið fór hið besta fram. Og takk fyrir skemmtunina og viðurgjörninginn, Vestmenn allir. En þetta var nú allt of stuttur tími. Náði ekki að sýna Rannsóknarskipinu Rauðasandinn eða neitt. Og ekki laust við að eitthvað minna verði úr hittingum þegar maður þarf að vera á hlaupum á eftir krakkagemlingunum. (Ja, eða aðallega einum. Freigátan gerði margar heiðarlegar tilraunir til að fyrirkoma sjálfri sér og öllu úr dýraríkinu sem hún komst í tæri við.) Svo það er stefnt á aðra vesturferð... eftir svona 4 - 6 ár.

En Freigátan var nú samt líklega hamingjusömust með ferðina. Við gistum hjá henni Gróu fö, en hún á tvo ketti og fimm kettlinga. Sem ég vona að hafi allir verið lifandi þegar við fórum. Hún á líka alveg ljómandi fjórtán ára barnapíu sem tók að sér að skemmta bæði Hraðbáti og Smábáti, eftir því sem hún mátti vera að. Ættarmótið var síðan úti í sveit, þar sem Afmælisfrænka mín sýndi okkur heilmikið af bústofninum. Freigátan varð reyndar hálfsmeik við hænurnar, það voru læti í þeim, en fannst refurinn merkilegur, fékk að halda á kanínu og gerði margar heiðarlegar tilraunir til að fá kindurnar til að tala við sig. En að elta þær og kalla: "Kindur! Koddu!" er víst ekkert sérlega vænlegt til árangurs.

Og nú tekur við undirbúningur útlegðarinnar. Hraðbáturinn er með smá hor og hita, svo ég er ekki alveg viss hvort við förum í jógað... samt leiðinlegt að missa af næstsíðasta tímanum... En ég þarf líka að skipuleggja aðgerðir. Hér er allt á hvolfi. Og fyrir liggur að taka til og þrífa híbýlin, ákveða hvað ég þarf að nota í sumar og pakka því niður... og fara í kaffi á Bandalagið.
Og þetta þarf allt að klárast fyrir fimmtudaxkvöld því þá er ég að huxa um að fljúga austur með litlu krílin. (Og þá er nú líklegt að tuttugu stiga hitanum fari að ljúka þar um slóðir og allt að leggjast í norðaustan hrylling. Best að reikna bara með því.)
Ætli maður þurfi ekki að fara að taka réttri hendi í rassinn á sér.

Ég togast samt algjörlega í tvær áttir með hvað mig langar að gera í dag. Mig dauðlangar að pakka Hraðbátnum bara ofan í vagninn, með hori og öllu saman, fara í jóga og koma við á Bandalaginu í bakaleiðinni. En skynsemin segir vissulega að nú sé lag að fresta ekki því óhjákvæmilega og nota tækifærið og ráðast á garðinn það sem versta lyktin er og byrja að þrífa baðherbergið... Á hinn bóginn kemur mamma líklega í heimsókn á morgun. ;-)

Engin ummæli: