15.7.08

Familí Átíng

Um helgina braust út múgæsing hérna á stórheimilinu. Allt í einu stefndi í að öll systkini mín yrðu á sama stað á sama tíma með tengdabörnum og næstum öllum barnabörnum. Og svo átti í ofanálag að bresta á með þessari líka brakandi blíðu. En bara í þrjá daga.

Það var rokið þvílíkt upp til handa og fóta við skipulagningar á daxferð að þess var ekki alveg gætt að allir væru mættir á svæðið. Svo á laugardaginn var þrusað út í Papey, þrátt fyrir að Ba frænka væri ekki ennþá nema á leiðinni á Hornafjörð, sunnan að.

Lagt var af stað í skítsæmilegu, svosem, en tvær grímur fóru að renna á menn þegar komið var upp á Öxi og farið að rigna. Á Djúpavogi rigndi meira, en létu menn það ekki á sig fá, allir skyldu í bátana! Það var mikill veltingur á leiðinni. Svo mikill að Rannsóknarskip og Freigáta báru bátnefnin frekar illa og voru orðin frekar græn í framan þegar út í eyju var komið. Hraðbáturinn bar sig best og steinsvaf báðar leiðir. Móðurskip gat líka alveg setið niðri í káetu hjá honum, sæmilega hress.

Úti í Papey var ætlunin að fara einn gædaðan hring (í sólskininu) og helst ná nokkrum myndum fyrir Gletting. Skemmst frá því að segja að skyggni var ekkert, það hellirigndi og vindaði þannig að það endaði með því að við litla fjölskyldan yfirgáfum gönguferðina og forðuðum okkur inn í kirkju með krílin. En Freigátan var svo eftir sig eftir sjóferðina að það þurfti að halda á henni líka, og Hraðbáturinn saup hveljur í bumbupokanum, í rokinu. Freigátan var annars manna þurrust eftir volkið, enda var hún sú eina sem hafði tekið með sér regngallann og stígvélin. Aðrir höfðu séð fyrir sér meira og minna sól, allavega þurrt, svo menn voru sérlega illa skóaðir og allir voru orðnir blautir upp að hnjám undireins.

Lox valt gönguhópurinn inn til okkar, eins og fokinn kamar, og blauta nestið var borðað í kirkjunni.


Á leiðinni til baka höfðu menn vit á að standa í bátnum. Og sumir bara úti á dekki, sem var þó ekki allskostar næs í rokinu og rigningunni. Hraðbáturinn svaf bara í bumbupokanum undir björgunarvesti Móðurskips og öðrum tóxt að komast nokkurn veginn heilir til hafnar.

Ég veit ekki með þau í hinum bílnum, en litla fjölskyldan ók til Egilsstaða á brókinni. Mikil heppni að við vorum ekki stoppuð á leiðinni. Og þegar við vorum að læðast inn sáum við okkur til óyndis að barnavagninn, sem hafði verið skilinn eftir úti í blíðviðrinu, var orðinn fullur af rigningu og allur hundblautur.

En, semsagt, allir komu þeir aftur og enginn þeirra fékk kvef. Svo þannig fór um sjóferð þá.

Í gær átti að gera aðra tilraun og fara inn á Kárahnjúka. Í nágrenni við stífluna var skítviðri. Bóxtaflega. Moldrok og ógeð. En svo fórum við lengra inn eftir og þar var þessi líka blíðan og hægt að taka flottar myndir í átt að Snæfelli, Kverkfjöllum og Brúarjökli. En það var komin rigning þegar við komum heim. Og þetta átti líka að vera blíðviðrisdagur, samkvæmt veðurspá.

Og nú er kominn norðan viðbjóður. Nákvæmlega eins og var spáð. Og hann á að standa fram að helgi. Vonandi skánar veðrið nú eitthvað aðeins þá, þar sem þá ætla systkini Rannsóknarskips að koma í heimsókn. Vonandi skánar þó ekki of mikið, því þá gæti Sverrir mágur þurft að vera heima að heyja.

En við förum ekki með þau í Papey.

3 ummæli:

Elísabet Katrín sagði...

Engin Papey...hummm og það sem var farið að hljóma svo spennandi ;) tíhí..sjáumst svís :)

Varríus sagði...

Keeellingar

(ekki illa meint, en þú veist hvað ég meina)

Sigga Lára sagði...

Hehe. Nákvæmlega það sem rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var orðin ein eftir nokkurn veginn ósjóveik.
Einhverjar svaðilfarir í Færeyjum.