17.7.08

Kjaftamyllustræti*

Nú búum við í íbúðinni þar sem amma hennar Ásu Heiðar bjó þangað til í vetur. Þar búum við með ýmsan borðbúnað og innanstokksmuni sem amma mín átti. Í tilefni alls þessa höfðum við ömmukaffi í gær. Það var æði.

Rannsóknarskip skellti í pönnukökur og ég keypti svampbotna og smurði með Bettí Krokker kremi. (Ókei, ekkert mjög ömmó. En vinnandi konan nennti ekki að baka.) En útkoman var hin allra besta. Haugur af fólki kom í kaffi, ekkert allir á sama tíma svo þetta varð svona dáldið rennirí. Og mikill og skemmtilegur kjaftagangur við eldhúsborðið. Svo komu aukabörn á eigin vegum að leika við Freigátuna sem síðan fóru með henni út, yfir í næsta garð og svo þarnæsta garð (þar sem býr hundur) og tveggja og hálfsárs barnið var bara heillengi eftirlitslaust að leika við fólk í grenndinni. Það var opið uppá gátt allan daginn og norðanáttin hafði sig svo hæga að það var algjör rjómablíða úti.

Mér líður þessa dagana talsvert eins og ég búi í bók eftir Astrid Lindgren, eða álíka. Ég þekki nágrannana sem ég hef átt hér í mánuð talsvert betur en ég hef nokkurn tíma þekkt nágranna í Reykjavík. Krakkahjörðin í hverfinu þvælist hérna um alla garða, algjörlega án nokkurra aðgangshamlana og enginn þarf að hafa áhyggjur af þeim. Menn kallast á og segja brandara yfir götuna og limgerðið. Með öðrum orðum þá hefur mannlífið hér lítið breyst frá því að ég var lítil. En það var auðvitað best að vera barn þá.

Ég er farin að segja við Rannsóknarskip (í hálfgríni) að ég sé að huxa um að fala húsið af honum Jóni á Keldhólum og fara ekki rassgat. Ég á allavega eftir að sakna búskaparins okkar hérna við Kjaftamyllustræti.

*Kjaftamyllustræti er hálfraunverulegt nafn á þvergötunni sem hús foreldra minni, núverandi íverustaður minn og nokkur fleiri hús standa við. Þetta nafn held ég að sé komið frá merkilegum karakter sem hét Kormákur Erlendsson og var einn frumbyggjanna hér á Egilsstöðum. Honum þóttu víst kjeeellingarnar eiga til að stansa fullengi á kjaftatörnum í þessari götu. Og það gerist enn í dag. Ég huxa að ég sé búin að eyða samtals nokkrum klukkutímum á kjaftatörnum úti í Kjaftamyllustræti í sumar.

Engin ummæli: