31.8.08

Sólbraut 10

Er í óða önn að reyna að ganga/hlaupa/hjóla af mér einhver 10 kíló sem vantar uppá að ég verði Aðalpæja. Kría mér þess vegna út útivistarleyfi í einhvern klukkutíma á kvöldi. Gekk í kvöld út á nesið Seltjarnar. Þegar ég var komin á móts við Torg Eiðis fékk ég örlítinn hugbjarma og ákvað að leggja lykkju á leið mína og berja augum slóðir fornar.

Ég man þegar ég sá Húsið í fyrsta skipti. Kom með tveimur skólasystrum mínum á Akureyri í borg óttans og þær óku mér fúslega á staðinn hvar ég myndi hitta Berglindina mína og aðra vini og ætti að eiga samastað á meðan á dvöl stæði. Þegar í götuna var komið efaðist ég stórlega um að við værum á réttum stað. Umhirðuleg einbílishús með jeppum fyrir framan... leit ekki líklega út. Þangað til ég sá ómálaða húsið með illa hirta garðinn í kring og allar druslurnar standandi í malarbílastæðinu. Það þótti mér huxanlega geta verið leigubústaður nokkurra háskólanema.

Ekki grunaði mig að nokkrum mánuðum síðar myndi ég flytjast til höfuðstaðarins og þangað inn. (Nánar tiltekið í bílskúrinn.) Aðeins til að flytja út viku síðar. (Komst inn á Stúdentagarða.) En vera engu að síður þarna með annan fótinn allan veturinn.

Þegar ég lít til baka sé ég slóð eyðileggingarinnar liggja um þennan vetur. Leirtau, húsgögn, hjörtu, sálir, menntavegir, vináttubönd, geðheilsur. Fárviðri þessa heilsvetrar dramakasts eirði engu. Mesta furða hvað lifir eftir af geðheilsu allra hlutaðeigandi. (Eftir því sem ég best veit.) 

En dramatík þessa skammtíma var ekki alveg öll af neikvæða taginu. Þetta var nú líka veturinn sem ég byrjaði í Hugleik og við Rannsóknarskip klúðruðum inntökuprófum í Skóla Leiklistarinnar. Í fyrsta skiptið. Og það var nú skemmtilegt. Ég sá líka Hárið (Baltasars Kormáx) þrisvar. Borgaði morðfjár fyrir og tók alltaf sömu andköfin af hrifningu.

Húsið hefur ekki farið varhluta af góðærinu. Nú er það allt málað og viðgert og óðalsteinar allt um kring. Garðurinn í umhirðu og í honum trampólín, barnakofi, dót. Það eina sem minnir á ljóta húsið í gamla daga er hóllinn sem laxinn var leikinn á, forðum.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég hef ekki kíkt þangað síðan ég flutti úr bílskúrnum! Fær maður ekki bara nostalgíukast dauðans ef maður rúllar þarna fram hjá?
Kveðja
Þórdís

Sigga Lára sagði...

Merkilega lítið. Þegar maður sér barnadótið í garðinum og golfsettið við bílskúrsdyrnar þá verður þessi "subbulega" fortíð eiginlega bara... óviðeigandi. ;-)

Berglind Rós sagði...

Hahahahaha laxinn, nú verð ég hlæjandi í allan dag, þeir snilldar leiklistartaktar eru algjörlega ógleymanlegir :-D

Sigga Lára sagði...

Reyndar helber sögufölsun að halda því fram að laxinn hafi verið leikinn uppi á hólnum. Það gerðist nú bara á jafnsléttu. Laxleikarinn var hins vegar bitinn af einhverju illa uppöldu barni úr nágrenninu uppi á þessum sama hól, skömmu síðar.

Þetta hljómaði bara eitthvað svo... dramatískt.