8.9.08

Menning... (?)

Annað kvöldið í röð sofna þau litlu fyrir allar aldir og nú gripu Rannsóknarskip og Smábátur tækifærið og brugðu sér á X-Files. Ákvað að athuga hvað væri framundan í leikhúsunum svo maður gæti nú gert eitthvað af viti næst. Ef þau litlu ætla að leggja þessa snemmsvæfni eitthvað í vana sinn. Það sem er verið að sýna á næstunni, og mig langar að sjá, eru Engispretturnar í Þjóðleikhúsinu (sem ég get reyndar líklega ekki séð fyrr en ca. 4. okt.) og Fýsn í Borgarleikhúsinu. Ég veit ekki hvort ég myndi nenna á Fló á skinni eða Ástin er diskó. Kannski samt, svona ef ég hefði ekkert annað að gera.

Og mér skilst ég vera ein af afar fáum sem er ekki rétt ánægð með Mama Mia. Sko. Það getur vel verið að þessi söguþráður haldi alveg vatni. Þetta gæti verið ágætis, hálfvitleysisleg, gamanmynd. Abba-tónlistin passar bara ekkert inn í hana. Henni er algjörlega þröngvað þarna inn með töngum og þumalskrúfum. Það er vissulega hressandi að sjá mynd þar sem fólk brestur í söng og dans annað slagið. En mér finnst nú að uppbyggingin að því þurfi líka að vera sæmilega "líkleg." Og það eru heilmiklar sagnir og sögur í mörgum Abba-textunum og ég get ekki varist þeirri huxun að þetta hefði nú verið hægt að gera betur. Spurning um að bíða í svona 30-40 ár eftir að moldiviðrið gangi niður og reyna þá aftur? Eða ekki.

Fór í heimsókn á nýja Bandalagið á Suðurlandsbraut. Það er í göngufæri við Laugarnesveginn, svo þetta er spurning um að flytja í Teigana eða Lækina. Reyndar ágætisskóli, skilst mér, Laugarnesskólinn. Og stutt í Laugardalslaugina... já best að athuga hvað er á sölu í 105. Kannski eftir tvö til fjögur ár. Ef ekkert almennilegt verður í boði á Hallormsstað eða Hrafnagili. Eða ég verð ekki ennþá orðinn rithöfundur í fullu starfi. Ókei, framtíðarplönin eru orðin svo margslungnum skilyrðum háð að ég er hætt að botna í þeim sjálf.

Og við fórum í heimsókn á Leikskólann Verðandi í morgun. Fengum loðin svör. Víst er búið að ráða tvo starfsmenn. En annar getur ekki byrjað fyrr en í lok mánaðarins. Jæjajæja.

Og hvað gerir maður þegar maður er allt í einu svona einn heima í reiðileysi? Er þetta ekki spurning um að taka til, brjóta saman þvottinn og gleypa svo allt aukaefnið úr The Wire í einum bita? Sveimér ef ekki...

3 ummæli:

Ásta sagði...

Æi ég er óttalega sammála þér með Mamma Mia. Sætur söngleikur en samt eiginlega hvorki fugl né fiskur.

Er það rétt skilið hjá mér að þið eigið alla Wire þættina á dvd? Ég á þá alltaf eftir... get boðið allar seríurnar af Oz í býttum...

Sigga Lára sagði...

Já, við eigum þá alla og mælum vel og vandlega með því. En spurning hvort við fáum ekki heldur eitthvað af Homicide - Life on the streets frekar. (Þetta eru að einhverju leyti sömu hugmyndasmiðir og Árni á alveg eftir að sjá þessa þætti og ég er búin að gleyma þeim.)

Ásta sagði...

Já auðvitað. Verðum að koma upp býttum við tækifæri. Ég er reyndar búin að gleyma þeim að miklu leyti líka - enda jafnlangt síðan ég horfði á þá.