10.9.08

Síðasti Morgunn í Heimi.

Við ákváðum að fara út og gefa öndunum í morgun. Ekki verri aðferð en hver önnur til að eyða síðasta morgninum í heiminum. Hraðbátur gerði sér lítið fyrir og stóð upp í fyrsta sinn. Er greinilega áhættufíkill og gerði það um borð í barnavagninum sínum, á ferð.

Eftir að öndum og sílamáfum hafði verið gefið gamalt brauð ákvað Móðurskipið að ná í stúdentaskírteinið sitt meðan heimsbyggð stæði. Enda bara velkomið að heimurinn endi á meðan maður stendur í lönnnnngu röðinni við upplýsingaborðið á Háskólatorgi.

En skilríkið náðist í Móðurskipsvasann og við ákváðum að taka stefnuna á hinn verðandi leixkóla Freigátunnar í leiðinni heim. Svona ef ske kynni að við næðum þangað aftur. Eitthvað er nú að glaðna yfir hljóðunum í leixkólafólki. Verið að ráða og svona, þannig að það fer kannski hugsanlega að koma að því að Freigátan geti byrjað. (Ef svartholið lofar.)

Og heim erum við komin. Löngu búið að kveikja á hraðlinum í útlöndum og veröldin stendur enn, nú eftir hádegið. Annars var ég að lesa mér til á öðrum bloggum og skilst að heimsendis sé næst að vænta uppúr 21. október. 

Og þá verður nú Glettingurinn minn vonandi bara kominn út.

Engin ummæli: