11.9.08

Nóg komið!

Nú fer ég að vinna í að halda Hraðbátnum vakandi á daginn. Hann vaknaði sumsé klukkan 6 í morgun, í miklu stuði og þverneitaði að fara aftur að sofa. Móðurskipið drattaðist á lappir fyrir 7 og Freigáta og Rannsóknarskip skömmu síðar. Já, og Smábátur hefur tekið uppá þeim skemmtilega sið að vakna ævinlega sjálfur við vekjarann í sínum eigin síma! Og fær ríkulega launað í sjónvarpsglápi fram yfir fyrri viðtekinn háttatíma.

Allavega, til að gera þreyttan dag þreyttari eyddum við morgninum í að spóka okkur í Laugardalnum (með viðkomu á nýja Bandalaginu). Hraðbátur átti að sofa í spókinu en þverneitaði því. Meira spennandi að vera vakandi í strætó og æfa áhættuatriði í vagninum sínum á göngunni. Þegar heim var komið átti hann að vakna og Freigátan að sofa. Í staðinn láðist henni alveg að fara að sofa en hann fékk sér smákríu, áður en tími var komið á ungbarnasundið. Hin ósofna Freigáta fékk að fara í heimsókn til Huggu frænku á meðan Hraðbátur skemmti sér jafnvel í sundinu og síðast, þrátt fyrir svefnleysi.

En bæði litlun voru nú sofnuð fyrir hálfátta, gjörsamlega örmagna. Móðurskip vatt kvæði sínu í kross, tók til handargagns bláberjahelling sem Smábátur týndi ásamt ömmu sinni um síðustu helgi og sauð úr þeim sultu. Það er einfaldara en ég hélt. En árangurinn er enn of heitur til að vera kominn í ljós. En ég ætti greinilega að vera aðeins duglegri að geyma krukkur fyrir næsta ár.

Fór á generalprufu á Fýsn í gærkvöldi og er spennt að sjá hvernig dóma það fær. Er ákveðin í að reyna að vera duglegri að sjá leikhús í vetur en endranær. Asnalegt að eiga alltaf frímiða á allt og nota þá aldrei.

Rannsóknarskip er að taka ofurvel til, til að eiga inni fyrir að keppa á golfmóti grunnskólakennara á morgun. Já, ég er að fara í skólann... er ekki búin að læra! Mjööög hallærislegt að mæta ólesin í málstofu. Það er beinlínis ætlast til að maður viti eitthvað og finnist eitthvað og tjái sig um það í óhófi.

Er að láta mig dreyma um að fá að sofa framyfir sexleytið í fyrramálið.

Engin ummæli: