16.11.08

Leiðindi, leiðindi

Ætli það þurfi ekki bara að leggja í alveg huuuundleiðinlega vinnu á Íslandi í endurbyggingu regluverksins og hagkerfisins frá grunni þannig að enginn megi ráða vin sinn, eða sjálfan sig, til neins og að alla hluti verði bara að gera... gáfulega.

Ef ég væri á þingi núna myndi ég sko drífa í að segja af mér. Þessa vinnu þarf að vinna samhliða því að taka endalausan hala af óvinsælum ákvörðunum. Ég er löngu hætt að fatta hvað liðið er að spá að hanga á ráðherrastólum sínum eins og hundar á roði. Það eru erfiðir tímar framundan. Og þeir verða verstir á þingi, bæði erfiðir og leiðinlegir. Þ.e.a.s fyrir venjulegt fólk.

En ýmsir virðast nú komnir fram á sjónarsviðið sem hafa virkilegan áhuga á, og gáfulegar hugmyndir um, hvað þarf að gerast til að Íslenska stjórnkerfið, og þar með hagkerfið virki. Hagfræðingar skrifa gáfulegar greinar í haugum og hrúgum og heimspekingar eru líka að koma sterkir inn. Svo bara allskonar snillingar. Mig langar að sjá þessa menn, ef ekki á þingi þá í ráðgjafarstöðum úti um alla vinnuna sem vonandi fer að fara í gang. (Ekki að ég hafi froskarassgatsvit á því hvað er gáfulegast að gera, hef bara einhverjar óljósar hugmyndir um að menn ættu kannski að vera með einhverja menntun eða reynslu af einhverju sem tengist ráðuneytunum sem þeir ætla að stjórna og ráða hæfasta fólkið í viðeigandi störf.)

Svo veit ég líka að til eru menn sem eru búnir að vera svo algjörlega obbsessd af hagkerfisumræðum í mörg ár að hann hefur verið næstum búinn að drepa kærustuna sína úr leiðindum úti á djamminu af því að hann getur ekki hætt að tala við vini sína um hagkerfið á fylleríum. (Minnir mig á hvernig við Berglind gátum orðið á eðlisfræðibrautarárunum.)

Semsagt, Siffa bró og hagkerfisvini hans á þing!

En ég er ekki að djóka með þetta, ég fékk hálfgerða magapínu bara við að skrifa þessa færslu. Held ég sé í alvörunni komin með eitthvað óþol gagnvart kreppuhjalinu öllusaman. Eða kannski er þetta bara vond samviska yfir að hafa ekki enn drullað sér á Austurvallarmótmæli sem eru þó í um 7 mínútna göngufæri.

10 ummæli:

Sigurvin sagði...

Haha, þakka traustið!

Skil annars vel að þú orðin veik á umræðunni. Er sjálfur orðinn fráhverfa á að pæla í þessu vegna þess hve mikið er blaðrað og lítið gert. Svo hjálpar stefnuleysi stjórnvalda ekki til. Ég trúi því að það séu tylftir manna sem hafa meiri hugmynd um hvað skuli gera heldur en þeir sem sitja við stjórnvölinn núna. Við þurfum á þeim að halda sem fyrst.

Hálfvitarnir sagði...

Með fullri virðingu fyrir bróður þínum sem slíkum:

Hagfræði er sýnd alltof mikil virðing þessa dagana. Miðað við það að svoleiðis menn eru innstu koppar í búri í klúðrinu.

Allir - Ráðherrar, bankastjórar, mógúlar - eru með hagfræðingager í kringum sig.

Þeir hagfræðingar sem stíga nú fram með lausnir eru hver með sína lausn.

Sem þýðir að þeir hafa mest lítið hugmynd um hver sé rétta lausnin.

Hljóma satt að segja svolítið eins og læknarnir í Ímyndunarveiki Moliéres

Eða jafnvel í Ástríki í Heilvitalandi.

Það er nefnilega svo stór faktor í þessari fræðigrein sem er óvísindaleg. En nafnið fær okkur til að halda að þarna fari eitthvað hliðstætt við náttúruvísindin.

Svo er ekki. Eitt af því sem væri gott að gera (lítið skref en mikilvægt) væri að breyta nafninu úr Hagfræði í Hagspeki. (sbr: stjörnufræði/stjórnuspeki og heimsfræði/heimspeki)

Altsvo: fræðigrein sem ekki getur sagt fyrir um hvað gerist á morgun (eða lætur annarlega hagsmuni stýra áliti sínu) á ekki að njóta kennivaldstrausts.

Varríus sagði...

Úbbs

fattaði ekki að ég var innskráður sem Ljótu Hálfvitarnir en ekki ég.

Þetta var alltsvo ég. Sameiginlegar skoðanir Hálfvitanna á hagfræðingum eru örugglega allt öðru vísi og sennilega mun safaríkari.

Toggi

Sigga Lára sagði...

En er "rétta" lausnin til, yfirhöfuð?

Ég held að ef hagfræðingagerið, og ekki síst áhugahagfræðingarnir, áhugahagkerfisfræðingarnir og áhugareglugerðarfræðingarnir, áhugaþjóðfélagsfræðingarnir, og beisikklí allir sem hafa áhuga á "ástandinu" og eru ekki enn komnir með magapínu af að tjá sig um það, ættu endilega að leggja höfuðin í bleyti, sundur og saman, og finna sem allra flest tilbrigði við sem allra flestar lausnir. Það er ekkert "eitt" að fara að "bjarga" landinu. Það þarf að gera gríðarlega margt.
Og ef það á að breyta regluverkinu í allri stjórnsýslunni þarf örugglega að taka tillit til margs. Og það er örugglega allt jafnleiðinlegt.

Ef hagfræðingar allir væru komnir fram með eina alltumlykjandi lausn væri ég nú tortryggin.

Það eru þeir sem þurfa að vera í "nefndum" og vinna úr öllu saman og búa svo til eitthvað vitrænt úr öllu saman sem ég öfunda minnst af öllu þessu fólki. Púff.

Er mjög hamingjusöm að vera í þeirri stöðu að gera líklega ekki annað í þessu nema skrifa leikrit. Og sennilega bara um eitthvað allt annað.

Sigga Lára sagði...

Og mikið væri nú skemmtilegt innlegg að fá sameiginlega ályktun frá Hálfvitunum hvað skal gera í ástandinu. Ekki verra að hún væri í bundnu máli og lag við.

Viðeigandi þar sem Sævar lenti nú í því að verða byltingarmynd kreppunnar þar sem hann var myndaður við að koma frá því að leggja inn hálfvitapeningana, um daginn.

Varríus sagði...

Hárrétt og fínt.

Bara að passa sig á því að rugla saman því sem hagfræðingar geta og því sem stærðfræðingar geta.

Það að orð endi á -fræðingar gerir orð þess ekki að lögum.

Og umfram allt ekki kjósa neinn á þing af því hann er hagfræðingur. Eða lögfræðingur.

Það er mjög pirrandi t.d. hvað allir eru hneykslaðir á því að fjármálaráðherran skuli vera dýralæknir.

Þegar vandamálið er klárlega að fjármálaráðherrann er a) úr sjálfstæðisflokknum og b) Árni Mathiesen

Varríus sagði...

Hálfvitarnir eru með þrjú lög í smíðum - þ.e. sem komin eru nálægt því að verða tilbúin:

1. Lag um nauðsyn þess að dansa og syngja

2. Lag um mikilvægi þess að hafa rétt veiðarfæri

3. Lag sem skýrir uppruna skagfirsku sveiflunnar

Sigga Lára sagði...

Það er ekki það að menn séu -fræðingar sem ég er að spekúlera í heldur að menn hafi áhuga og forsendur til að standa í þessari vinnu. Persónulega liggur mér við að gubba við tilhugsunina.

Það sem mér sýnist núna ætla að gerast er að það verði gerðar einhverjar örfáar og yfirborðskenndar sýndarbreytingar sem breyta engu í raun og svo siglum við af stað í að reyna að láta næstu loftbólu redda málinu.

Það er það sem ég nenni ekki.
Myndi samt ekki nenna einhverri svona grúndígri "lagabreytingavinnu" til að bjarga lífi mínu.

Eg gaman verður á Hálfvitatónleikum í desember.
Jájá.

Gummi Erlings sagði...

Andri Snær orðaði þetta vel á laugardaginn, að það væri líklega engin tilviljun að fjármálaráðherra væri með próf í því að gelda og svæfa.

Ég ákvað að mig langaði aksjúallí að gera eitthvað, svo ég meldaði mig í hópinn sem stendur að borgarafundunum (borgarafundur.org). Og sé ekki eftir því, hópur af fólki sem er með fullt af hugmyndum án þess að nokkur stjórnmálaflokkur eða framboðspælingar komi þar nærri. Mér finnst í það minnsta mikill léttir að finnast ég komast að þó ekki sé nema smá gagni.

Sigurvin sagði...

Ég er sammála flestu því sem þú ert að segja, Varríus.

Hagfræði er náttúrulega byggð á félagsvísindum, þar sem gjörðir manna er það sem ræður för í hagkerfinu. Oft eru því skiptar skoðanir í þessari grein, þar sem mjög erfitt er að færa sönnur á kenningar.

Samt er það svo að við þurfum að beita einhverju kerfi til að ákveða hvernig við viljum dreifa efnislegum gæðum þjóðanna. Það er því nauðsynlegt að það séu menn í stjórnmálum sem skilja vel samhengi hlutanna í þessum efnum, sérstaklega á tímum sem þessum þar sem menn eru að taka ákvarðanir sem skuldbinda hvert mannsbarn á Íslandi jafnvel um milljónir króna.