22.12.08

Jólasveinninn Priki-Priki

Þá eru allir komnir í jóla"frí" á heimilinu, nema jólasveinninn Priki-Priki (sem er annað sjálf Freigátunnar þessi jólin.), hann fór í leikskólann í morgun. Ekki hef ég nú fundið þetta jólasveinsnafn í Sögu daganna, né heldur hef ég minnsta grun um hvaða sérkenni umræddur jólasveinn hefur. En hann hefur verið að lenda í ýmsum ævintýrum hérna innanhúss.

Annars lagðist Móðurskipið í það stórfenglega verkefni í gær að taka leikföng heimilisins til handargagns. Sortera, setja í mislitla kassa. Viðleitni til þess að það sé ekki allt of mikið af því í umferð í einu. Annars er dót á þessu heimili aðallega notað sem uppfyllingarefni. Freigátan nær sér gjarnan í þvottabala eða önnur ílát, fyllir þá af dóti og segist vera að baka köku. Jafnvel pönnuköku. Eða að fullt af dóti er sett í bala eða kassa, hún sjálf eða Hraðbáturinn settur ofaní, og þá er viðkomandi í baði. Stundum setjast þau á gólfið, hrúga dóti ofan á sig og eru "föst". Hraðbáturinn notar öll leikföng jöfnum höndum til að búa til hávaða. 

Hins vegar eru balarnir mjög spennandi leikföng og eru oft bátar eða sundlaugar. Plastdallar úr töpperverskápnum, eina kökuformið sem ég á, kökukeflið og ýmislegt fleira úr eldhúsinu er líka vinsælt. Teppi breytast mjög gjarnan í tjöld og snúrur af náttsloppum er gaman að toga á milli sín, þangað til annar missir og bæði velta um koll, öskrandi af hlátri. Nú situr Hraðbáturinn frammi í forstofu og gáir undir mottuna. Uppáhaldið hans eru lokin af barnamatskrukkunum sem ég er búin að vera að safna fyrir hann og var einmitt að setja í þartilgerðan kassa í gær.

Ég er helst á því að börnin mín aðhyllist Hjallastefnuna.

Eitthvað vorum við að hafa áhyggjur af því að jólatréð fengi ekki að vera í friði fyrir tiltektarafköstum Hraðbátsins. En nú er búið að setja það upp, reyndar ekki skreyta, en ungi maðurinn lætur sér fátt um finnast og hefur talsvert meiri áhuga á kassanum utan af því.

Tiltekt og afþurrkanir í húsinu tókst annars bara nokkurn veginn að klára í gærkvöldi. Rannsóknarskip tók eldhúsið til svo rækilegrar endurskipulagningar að ég veit ekki um neitt í því núna (sem er allt í lagi, nú er hann í fæðingarorlofi og á að eyða því á bak við eldavélina) en ég gerði skrifstofuhornið af dótaherberginu starfhæft. Og þá held ég að sé bara eftir að skúra og skreyta. Já, og versla jólagjafir í heimamenn. Og þrífa myglmund, sem átti endurkomu í þvottahúsinu í gær þegar ég var með lokaðan gluggann þar í 5 mínútur og þurrkarann í gangi.

Engin ummæli: