26.12.08

RS-jólin

Þá er runninn upp þriðji dagur ofáts. Litlu ormarnir komir á kaf í jólagjafirnar af hjartans lyst og Freigátan búin að lækna alla sem eru vaknaðir eða semí- aðallega með því að skoða í eyrun á þeim.

Jólin eru sem sagt búin að vera ljómandi. Og allir sammála um að heimtur hafi verið góðar. Smábátur fékk gríðarlega mikið af fötum og bókum, þau litlu eru líka vandlega fötuð og eiga heilmikið dót og bækur líka. Eitthvað kom nú í tvíriti, en stefnt er á að fara í skila og skiptiferð áður en við förum norður. Við Rannsóknarskip erum líka hæstánægð, það er riiiisastór ólesinn jólabókaturn á náttborðum vorum.

Því miður hafa lestrarafköst nú ekki verið neitt svipuð og í meðaljólum. Litli Hraðbátskúturinn hefur nefnilega verið með rs-vírus, eyrnabólgu og magapest í kaupbæti og við erum eiginlega búin að skiptast á að halda á honum síðan á Þollák. (Með þeim afleiðingum að við réttsvo meikuðum 2 blaðsíður hvort á jólanótt. Paþþþettikk.) Það var ekki fyrr en í nótt að jólakraftaverkið gerðist og drengurinn svaf í 12 tíma í einni beit. Og allir aðrir um leið. Svo vonandi fer hann að hjarna við. Hann er allavega farinn að anda nokkurn veginn eins og fólk. Eyrun virðast líka vera að lagast, enda er hann á einhverju alveg baneitruðu pensillíni og tveimur astmapústum. En ekki er hann nú farinn að borða af neinu viti ennþá.

Í gær höfðum við okkur nú samt til Huggu frænku og átum hjá henni hangikjöt í hádeginu. Eftir það var stefnt til Ingu ömmu og Óla afa í kaffiboð, en við Hraðbátur sigldum fljótlega heim á leið vegna heilsuleysis.

Planið fyrir daginn er að endurelda hamborgarhrygginn í hádeginu (hann var fullsaltur á aðfangadagskvöld, en svaka mikið er eftir af honum svo nú ætlar hann að sjóðast í vatnsbaði.) Sem sagt, hafa fínt í hádeginu þar sem það er síðasta máltíð Smábáts heima hjá sér í bili, hann flýgur norðurum seinnipartinn. Og Rannsóknarskip og Freigáta ætla að skreppa í heimsókn til Völu vinkonu og leika við hana yfir fótboltanum.

Og þá er Rannsóknarskip komið á lappir svo nú má ég sofa "seinnivaktina" fram að hádegi! 
Jeij!

1 ummæli:

Siggadis sagði...

Gleðileg jól, elskurnar - sendum okkar bestustu bestu heilsu-kveðjur :-)