Mér finnst fávitarnir sem allir vita hverjir eru ekki aðeins þurfa að taka ábyrgð á kreppunni heldur öllum heila lygaþvættingnum á bak við "góðærið." Ég er dauðfegin að þetta sé að baki. Og mér finnst eigendur skuldugra jeppa og flatskjáa á raðgreiðslum ekki eiga að skammast sín fyrir nokkurn skapaðan hlut. Erkifjendurnir stjórnvöld og auðjöfrar gátu nú aldeilis sameinast þegar þurfti að ljúga endalausum neyslulánum upp í allan almenning með meðaltekjur og meira. En það þurfti að halda uppi "hagvextinum" og "hjólum hafkerfisins gangandi." Ég vona að fólk láti ekki selja sér samviskubit yfir kreppunni ofan á allt hitt draslið. Við erum að tala um auglýsingaherferðir og skrum upp á milljarða á milljarða ofan af ímynduðum peningum, dyggilega stutt af góðærishjali stjórnvalda. Fullt af hámenntuðum viðskipta- og hagkerfisfræðingum sá ekki í gegnum þetta þó menn séu, einhverra hluta vegna, hver að keppast við annan um að "hafa vitað betur og varað við árum saman" núna, eitthvað.
Ég vissi allavega ekki neitt. Ég trúði því alveg að allir þessir peningar væru til en ekki eins og glópagullið í fjórðu bókinni af Harry Potter. Mér var bara alveg skítsama og fannst áhrifin sem þeir höfðu á samfélagið virkilega ömurleg. Manngildi fótum troðið og græðgin undirliggjandi í stóru sem smáu. Mikilvægustu störfin vanmetnust að launum og virðingu. Þegar ég flúði land 2001 fannst mér þjóðin stefna í að rorra bara í spikinu, sauðsleg og siðblind. Kunni landi og þjóð ekki sérlega vel söguna þegar ég var erlendis, án þess að kunna almennilega að útskýra hvað var að pirra mig svona. Þegar ég kom aftur 2003 hafði hins vegar orðið þróun. Það var komið mótvægisafl. Krúttin, mótmælendur og félagar. Hægt var að koma sér upp góðærisblindu.
En ég átti ekki von á að fá að lifa að sjá þetta taka enda. Eða að komast að því að ég ætti eina sál með svona mörgum um þessi mál. Næstum öllum í landinu, finnst mér stundum.
Svo ég kann mönnum skít og skömm fyrir góðærislygina og að stela öllum peningunum okkar. En bestu þakkir fyrir að klúðra þessu ofan í klofið á sér að meðan ég lifði.
Og þorrabyltingin verður gerð. Þannig er það bara.
2 ummæli:
Jamm, og blóðugi bolludagurinn kemur sterkur inn.
Gaman að lesa skrifin þín. Sendum kveðju kvitt til borgarinnar frá okkur hér á Sey, Lilja Björk og rest
Skrifa ummæli