25.4.09

GAMAN!

Ég fyllist alltaf ógurlegri nostalgíu á kjördag. Þetta var ógurlegur hátíðisdagur heima hjá mér. Enda Alþýðubandalagið í kjallaranum. Allir voru einhvern veginn á þönum allan daginn. Enginn matur (bara tertur í kjallaranum), menn stóðu og grúfðu sig yfir lista yfir þá sem voru búnir að kjósa, reyndu að reikna út hvaða kommar gætu átt eftir að kjósa og væru kannski fastir einhversstaðar annarsstaðar. Maður gat lent í óvænta bíltúra niður á firði eða út í sveit, og nokkrar ferðir út á flugvöll. Um leið og maður var orðinn sæmilega skrifandi gat maður lent í að vera "fulltrúi" á kjörstað (Jón dýralæknir henti manni alltaf út meðan hann kaus. Svo maður passaði sig alltaf vandlega á að skrifa hann niður.) Öllum var sama um hvort maður fór einhverntíma að sofa.

Þetta var alltaf gríðarlega skemmtilegt.

En síðan ég komst til vits og ára hefur verið gríðarleg hægrisveifla í þjóðfélaginu. Það hefur því bara ekkert verið sérstaklega glatt á hjalla hjá mér í gegnum kosninganætur gróðærisins.

Og nú er allt í kaldakoli, á hausnum, og ekkert framundan nema djöfullinn og dauðinn hvernig sem þessar kosningar veltast og fara. Allavega ef maður er með efnahaginn á heilanum og hjartað í buddunni, eins og tískan er víst.

En ég get ekki að því gert. Komminn í mér hlær og orgar: NÚ FINNST MÉR GAMAN!

Engin ummæli: