Mikið ógurlega var ég nú glöð að heyra skoðanakannanir norðaustanað í kvöldfréttum í gær. Samkvæmt þeim ætla norðaustlendingar meira að segja að neita Tryggva Herbertssyni um þægilegu innivinnuna sem hann hélt hann væri að fá á ríkisspenanum. Við skítmoxtur.
Ég var farin að sjá fyrir mér flutninga til Kanada þar sem ígildi Sjálfstæðisflokksins ku hafa lagt sig niður vegna pólitísks afhroðs, en FLokkslaust kjördæmi hljómar líka afskaplega vel.
Nú skora ég á kjördæmi Steingríms að láta þessa spádóma rætast á kjördag. Jafnvel ganga enn lengra og koma Kristjáni útaf líka (þó mér finnist hann reyndar einn af þeim skrárri) þá er bara aldrei að vita nema fjölskyldan geri eitthvað afdrifaríkt í búsetumálum á næsta kjörtímabili!
Ég er annars ennþá óstaðsett í pólitíkinni. Ég sé fegurðina í núverandi ríkisstjórn, Borgarahreyfingunni (sem mér finnst frábært að skuli vera að ná fólki inn, hugsanlega) eins skil ég málstað þeirra sem ætla að skila auðu sem og hinna sem ætla að sitja heima. Því það er engan veginn hægt að skilja þá sem ekki mæta þannig að þeim sé alveg sama, í þessu árferði. Ég kem til með að líta svo á að þeir séu að senda skilaboð.
En ég held að mikilvægt sé fyrir geðheilsu þjóðarinnar að Sjallar og Framsókn séu í kuldanum í þetta sinn. (Og jafnmikilvægt fyrir geðheilsu Ástþórs að hann sé það líka.)
Annars held ég að mikilvægt sé að menn muni, í þessum kosningum eins og öðrum, að verið er að kjósa til fjögurra ára. Í mesta lagi. Þó síðustu dagana fyrir kosninga sé ævinlega allt látið hljóma eins og heimurinn sé á síðustu heljarþröminni eru þetta ekki síðustu kosningar í heimi. Og margt á vafalaust eftir að breytast á næstu árum og ekki ólíklegt að á bresti með öðrum kosningum tiltölulega fljótt og allir kjósi þá eitthvað allt annað. Kannski verður það sama ekki einu sinni til!
Svo spari menn sér hjartaáföllin í pólitísku umræðunum um allan bæ.
En mikið ógurlega er gaman að maður sjái ástæðu til að vara menn við því eftir offitusjúklingslega doðann sem ríkt hefur í pólitískri umræðu undanfarinna ára.
22.4.09
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli