Allir brjálaðir yfir sköttum, og svona. Í gærkvöldi sá ég svo hvað þetta þýðir í peningum.
Og hnussaði.
Enda er ég svo ógurlega lánsöm að hafa engar tekjur til að borga skatta af.
Í hrunósköpunum man ég að ég velti fyrir mér hvort yrði til nógur matur. Hvort fluttar yrðu inn bleyjur eða hvort ég þyrfti að skipta yfir í tauið. Hvort það yrði hægt að hafa heitt vatn og rafmagn. Hamfaralíkingarnar voru þannig að þetta hljómaði allt eins og grunnþarfir væru í hættu.
Og nú ku "kreppan" vera "skollin á" og "með fullum þunga". Hmmm. Jú, ég hef ekki fundið nýja túttu af ákveðinni tegund á stútkönnu sonar míns, í svolítinn tíma. Það er nú allt og sumt.
Já, einhverjir eiga erfitt með að borga af húsnæðunum sínum. En manni sýnist það nú eiginlega vera auðleysanlegt sýndarvandamál. Allavega ráða bankar við að afskrifa milljarða af "eigendalausum" skuldum stóreignamanna hist og her. En það má ekki afskrifa skuldir hjá venjulegu fólki. Þá verða allir hinir, sem ekki eru í vandræðum, arfabrjálaðir. Ég skil ekki alveg þá rökfræði. Græði ég ef fullt af fólki fer á hausinn? Tapa ég einhverju þó skuldir "venjulega fólksins", peningar sem aldrei voru til nema í sjúkum dagdraumum Hannesar Hólmstens, verði afskrifaðar?
Svo þetta snýst nú eiginlega bara um sama vandamálið og áður.
Græðgi og græðgi.
Auðmenn standa enn undir nafni.
En á meðan þeir ganga lausir og stjórna meirihluta af verslun og viðskiptum í þjóðfélaginu, er samt skiljanlegt að fólk sé pirrað á því að þurfa að borga nokkurn skapaðan hlut.
Hvernig væri að setja á nýjan skatt?
Hrunamannaskatt.
Þar sem hrunvaldar þurfa að borga hundrað prósent skatta af öllu sem þeir græddu í góðærinu. Hverja krónu. Og það á jafnt við um menn í viðskiptalífi, pólitík og óvirkum eftirlitsstofnunum. Þetta eru þeir sem hafa ekkert nema gott af því að vera aðeins slyppir og snauðir á atvinnuleysisskrá. Láta sér að kenningu verða og skammast sín.
Svo má taka tímann á því hvað þeir verða lengi að kjafta sig upp úr súpunni og aftur farnir að selja landanum og heimsbyggðinni himin og jörð fyrir fúlgur.
Þetta eru nefnilega snillingar.
11.11.09
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Hafist samt í huga að það var nákvæmlega einhvernveginn svona sem gyðingaofsóknir í aðdraganda síðari heimsstyrjaldar hófust.
Þeir áttu nefnilega alla peningana og flökkusögur sögðu að kunningjasamfélag þeirra hefði stolið þeim.
Svo þetta eru stórhættulegar hugmyndir sem ég fleygi hérna fram í hálfkæringi, og ætti algjörlega að vita betur, með nefið á kafi í Weimar-lýðveldinu.
Skrifa ummæli