16.12.09

Af gríðarmikilli akademískri leti í kjölfar stórsigurs

Kem mér hreint ekki að verki. Er búin að fá mér kaffi, lesa allt sem stendur á internetinu. Nenni samt hreint ekki að halda áfram með annars stórspennandi bók Normans FairClough um pólitíska orðræðugreiningu. (Sem er samt ekkert eins leiðinleg og hún hljómar.)

Sennilega eitthvað með það að gera að ég er búin með öll verkefni sem er "formlega" búið að segja mér að gera á þessari önn og ég er að fara að hitta leiðbeinendurna mína seinna í dag og veit ekkert hvað þeir ætla að segja.

Svo er ég bara montin. Fékk mína fyrstu einkunn í doktorsnámi. Hún var 9,5. Ég sit og horfi dáleidd á tölfræðiútreikningana úr doktorsnáminu mínu. En þar stendur: Meðaleinkunn: 9,5. Ég ætla að horfa reglulega vel á hana áður en næsta einkunn kemur og eyðileggur þetta. En þessi einkunn var nú í Brechti. Sem ég hef nú eiginlega enga afsökun í heiminum fyrir að fá lægra í.

Ég er enn ekki farin að undirbúa jólin. Eiginlega neitt. Gleymdi að kveikja þremur kertum á, á sunnudaginn. Er reyndar að fara í jólakaffi á leikskólanum hans Hraðbáts á eftir. En jólagjafir, jólatiltektir, jólabakstur... ekki einu sinni farið að pæla íessu. Kæruleysi? Líklegast.

Vonandi jólnar yfir mannskapnum um helgina. Svo verða tveir virkir dagar þar sem allir verða í jólafríi nema litlu ormarnir. (Og hugsanlega ég. Eftir því hvað menn segja á eftir.) Þá kemst vonandi eitthvað í verk.

Geeeeisp! Það endar með því að ég fer bara út að hlaupa í myrkrinu.

Engin ummæli: