18.12.09

Jólafrí frá „ástandinu.“

Helst ætla ég ekki að stökkva aftur upp á nef mér fyrir jól. Ekki svo að skilja að valdastéttin komist upp með neinn moðreyk... þetta reyndu þáverandi stjórnvöld líka að gera í fyrra. Keyra á allskonar vitleysu fyrir jól og vona að það gleymdist síðan yfir steikinni... En menn sneru bara fílefldir og hugdjarfir til baka og veltu ríkisstjórninni í janúar.

Nú er hins vegar í ljós að það er alls ekki nóg. Það þarf að velta stjórnkerfinu. Og líklega garga á þessa ríkisstjórn nonnstopp svo hún geri eitthvað í því að kasta af stjórnkerfinu og þjóðinni allri oki auðmanna. En ég hef trú á að þetta takist. Í janúar, með mallann fullan af hangikjeti og rakettureyk.

Ég er samt ekki komin í jólafrí í vinnunni. (Eða á maður að segja „vinnunni“?) Ætla að átlæna einn fínan kafla um nokkrar mismunandi aðferðir við orðræðugreiningu, í dag og eftir helgi. Það verður nú bara fínt.

Fór í gær og keypti næstum allar jólagjafir, nema í þá allra nánustu. Við hjónin ætlum að skreppa í smá ferð eftir. Unicef-búðina og svona. Klárum kannski bara dæmið. Hingað til hefur mér allavega tekist að sneiða alfarið hjá öllum mafíum. Jólamaturinn verður svo verslaður hjá Kaupásmafíunni, en ekki Baux, vegna þess að af tvennu illu fylgir nokkur alvara.

Frá og með deginum í dag eru Rannsóknarskip og Smábátur komnir í jólafrí. Þar sem þeir fá að sofa út fram að jólum fá þeir til tevatnsins alla seinniparta og verða settir í að klára allt sem ekki hefst um helgina.

Ég veit ekki hvort nokkuð verður nennt að baka. Með oggulítið eldhús sem ekki er hægt að loka, lítil börn sem ekki eru enn gjaldgeng í að hjálpa til, (en góð í að sulla og líkleg til að brenna sig) og aðeins 3 daga heima um jólin, (þar af jóladaginn alfarið í jólaboðum úti í bæ) virðist eitthvað svo lítill tilgangur með því. Ég kaupi kannski einhverjar kökulufsur og skammast mín ekki baun. Ef ég baka eitthvað verður það líklegast einhver tilraunamennska úr Silfurskeiðinni.

Mig langar miklu meira að þrífa bara og skreyta á morgun (og kannski eitthvað hinn) og vera svo bara í einhverju tjilli fram að jólum. Kannski verði meira að segja eitthvað úr því að mæta í Friðargöngu á Þollák. Sem ég hef ætlað að gera síðan ég flutti í bæinn, en aldrei komið í verk.

Kannski verður þetta þessi rólegi og skemmtilegi jólaundirbúningur sem maður sér alltaf í jólaauglýsingunum en aldrei heima hjá sér?

Lítið stressað hjá okkur, held ég bara.

Engin ummæli: