14.12.09

Jóla Jólajóla

Liðin er fyrirjólunarhelgin ógurlega. Farið var í sumarbústað Ingömmu og Ólafa og laufabrauð steikt á mettíma. Allir krakkar fengu að fara í pottinn með ömmum, öfum og pöbbum og skemmt sér var í hvívetna. Étin hrefna og svona. Svo var drullumallað rækilega úti í stórum polli áður en heim var haldið.

Á öðrum vígstöðvum var síðan Jólahrun Hugleiks frumsýnt í Hugleikhúsinu að Eyjarslóð. Ég held það sé alveg óhætt að mæla meððí. Heilmikið sungið, dáldið leikið og fíflast.
Síðasti sjens í kvöld klukkan 20.

Þegar öllu þessu er lokið fer nú að verða kominn tími til að undirbúa sjálf jólin. Á heimilinu hefur ekki verið bökuð svo mikið sem ein kaka. Keypt í mesta lagi ein og ein „random“ jólagjöf, húsið væri enn í rúst ef heimilisgesturinn Bára hefði ekki tekið geðveikt vel til á meðan við vorum í bústað (og svo fór hún bara austur án þess að við næðum að þakka henni fyrir eða neitt. Hún verður að fá eitthvað voða fallegt í þrítuxafmælisgjöf á milli jóla og nýjárs.)
Og allt eftir þessu.
Líklega þarf eitthvað að taka á honum stóra sínum í jólaundirbúningsmálum heima fyrir á kvöldin í vikunni.

Annars er syndróm sprunginnar blöðru eitthvað að gera vart við sig. En það gengur víst ekki. Ég ætla að gera eitt rannsóknarverkefni í vikunni. Um orðræðugreiningu. Held ég.
Já, og svo er hlaupaveður sem ég ætla að nota rækilega, þennan klukkutíma sem nokkurn veginn dagbjart verður um hádegisbilið.

1 ummæli:

Berglind sagði...

Grunur um birtu um hádegisbilið ... (vonandi finnst þér ég ekki spamma hjá þér athugasemdakerfið). - Annars, takk fyrir þessa góðu Hugleiksskemmtun í fyrrakvöld. Hefði auðvitað komið aftur í gærkvöldi ... ef ég hefði ekki verið upptekin við að hlusta á Ragnar Aðalsteinsson.