Þegar maður fer alveg út úr heiminum í nokkra daga kemur maður undarlegur til baka. Þegar fólk var talið hafa gengið í björg í gamla daga og "varð aldrei samt" eftir það finnst mér líklegt að það hafi rambað á einhverja svipaða samkundu og Leiklistarskóli Bandalags íslenskra leikfélaga er.
Fyrir "ókunnuga" ef einhverjir svoleiðis villast hingað, hefur þessi skóli verið haldinn á hverju sumri síðan 1997 og gengur útá að þrjú til fjögur námskeið eru kennd samtímis í nokkuð þéttum pakka. 67 klukkustundir á 9 dögum. Menntaðir og flinkir kennarar kenna áhugafólki leiklistartengt. um 50 manns úr samhengi við umheiminn í rúma viku. Núna var kennt byrjendanámskeið í leiklist, byrjendanámskeið í leikstjórn, Complete Vocal Technique og svo voru nokkrir "höfundar í heimsókn", fólk sem var ekki á formlegu námskeiði en fékk að nota aðstöðuna sem afdrep til að vinna að ritverkum sínum. Í þetta sinn var skólinn haldinn að Húnavöllum en hefur fram til þessa verið á Húsabakka í Svarfaðardal.
Allavega. Nú þegar 12 tíma svefn er afstaðinn verð ég vör við allnokkrar persónuleikabreytingar. Ég get ekki nennt að byrja að setja mig aftur inn í þjóðmálin. Bara dey úr leiðindum við tilhugsunina um að mynda mér skoðun á einhverju. Langar talsvert meira að fara að koma mér inní stöðuna á HM. Hverjir þurfa að vinna hvaða leiki til að komast hvert, og svona. Svo langar mig að halda áfram að æfa mig að spila og syngja alveg útí eitt. Langar miklu meira að skrifa leikrit og/eða tónlist heldur en að halda áfram að berja saman fræðitexta um orðræðugreiningu. Langar líka til að stela krökkunum snemma úr leikskólanum og fara með þau í lannnngan hjólatúr.
Svona verða líklega þeir sem hafa gengið í björg. Hafa upplifað eitthvað svo merkilegt að ýmislegt í daglega amstrinu virðist ferlega ómerkilegt eftir. Sem kemur kannski öðrum dáldið spánskt fyrir sjónir.
Fyrstu árin sem þessi skóli var haldinn komu margir heim með heiftarleg fráhvarfseinkenni. Það voru ríjúnjon seint og snemma og menn reyndu að endurskapa stemminguna hvar sem þeir komu því við. En nú eru flestir rólegri, held ég. Það er nefnilega orðið alveg á hreinu að þetta fyrirbæri er komið til að vera og líklega hægt að endurupplifa herlegheitin eftir eitt ár, fimm eða tíu, eftir því sem menn nenna.
Í millitíðinni er svo hægt að reyna að djöfla sér í samband við "veruleikann" aftur.
21.6.10
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Ég er búin að vera að leita að veruleikanum út um allt og trúðu mér. Hann er ekki að finna í fréttum.
Skrifa ummæli