Ég þekki Grýlu og ég hef hana séð
Hún er sig svo ófríð og illileg með
Það sem eftir lifir lags fjallar síðan um hvað Grýla er ljót. Af sjálfu leiðir að hún er líka vond.
Er það ekki?
Ég hef heyrt það notað sem rök gegn því að Jóhanna Sigurðardóttir sé vanhæfur forsætisráðherra að hún sé gömul og ljót. Ég hef heyrt að Björk sé of ljót til að vera tónlistarmaður. Og svo ekki sé nú minnst á allar þær sem eru of feitar til að vera í sjónvarpinu. Og líti konur sæmilega út eftir ákveðinn aldur? Þá hafa þær alveg örugglega farið í STREKKINGU! Og ekki er það nú betra.
En er þetta nokkurn tíma notað gegn köllum? Í pólitík eða annarsstaðar? Eru ráðherrarnir okkar einhver augnayndi? Hvað með tanorexarann sem situr í viðskipta- og efnahagsráðuneyti?
Misréttið felst, meðal svoooo annars, í útlitskröfum.
Mikið ofboðslega var gaman á Arnarhólnum í gær. Rífandi stemming. Æðislegar ræður og önnur atriði... ég hlustaði á lagið Áfram stelpur í þremur útgáfum í tilefni dagsins. Frábært að heyra alla þessa baráttusöngva, og svo félagarnir Hannes og Smári (æðislegar leikkonur í kallagervi) fóru æðislega með ranghugmyndirnar um að jafnrétti væri í höfn.
(„Muniði svo bara að mála ykkur, stelpur!“ Alveg æðislegir.)
Það var eiginlega alveg frábært að hafa í huga hvernig umræðan var fyrir 30 árum, sérstaklega þegar maður las alla karlrembuvitleysuna sem fólk lét út úr sér á fésinu í gær. Eftir 30 ár verður sjálfsagt hægt að grenja úr hlátri yfir því líka. En ég held að fólk af öllum kynjum hafi oft tekið sér tveggja tíma frí í vinnunni af heimskulegra tilefni. Ég hef til dæmis unnið á alveg slatta af vinnustöðum þar sem konurnar vinna í opnu rými í miðjunni, langflestir kallar eru með skrifstofur, og þeir eru meira og minna ekki við eftir hádegi á föstudögum.
En ræðurnar voru magnaðar. Opið bréf til geranda var gott að fá í púkkið. Það er nefnilega sjaldan talað við geranda kynferðisglæpamála. Það er eins og nauðganir og misnotkun á börnum séu náttúruhamfarir sem enginn ber ábyrgð á.
Nóg komið.
Best að halda áfram að ströggla við doktorsnáminu, og hugsa með auðmjúku þakklæti um allt það sem okkur konum leyfist í dag.
Er það ekki?
26.10.10
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli