22.11.10

2. í ofurstresskrumpi

Ekki virðist geðvonskan ætla að láta undan síga alveg strax. Allavega var mjög erfitt að díla við börnin í morgun. Það er eitthvað við ástand ofurstresskrumps að því fylgir mjög aukinn einhverfustuðull og erfiðleikar við að fást við mörg áreiti í einu. Og það er svo merkilegt að tvö börn geta haldið úti allt að 10 mismunandi áreitum alveg á sama tíma.

Svo mikið var nú óvenjulega gott að skilja þau eftir á leikskólanum í morgun. (Og þau voru jafnfegin að losna við pirruðu-mömmu.)

Annars er helst í fréttum að nú er mig farið að langa ansi hressilega til að losna við þessi 8 kíló sem eru eftir í staðlaða þyndarstuðlunarmarkmiðið sem ég er búin að einsetja mér. (Með réttu ellegar röngu.) Fyrsta skrefið er að komast loksins í leikfimi í dag eftir hálfsmánaðar veikindafrí frá allri hreyfingu. Jafnvel er smuga að einnig verði reynt að komast í jóga í vikunni (svona til að jafna geðið) og hlaupa svo vel og rækilega og langt um næstu helgi. Þegar ég hugsa um það þá á veikindatengt hreyfingarleysi örugglega heilmikinn þátt í geðkrumpinu.

Í þessari viku liggur aðallega fyrir próflestur. Prófið er í þarnæstu viku en sú næsta verður eitthvað frekar geðbiluð, þannig að þetta er vikan sem hlutirnir þurfa að lærast, sem mest. Annars vegar póstdramað og hins vegar allt hitt.

Og nú ætla ég að lesa um Leikhúsið og Tvígengil hans eftir Antonin Artaud.
Af því að það er svo gaman.

Engin ummæli: