18.12.10

Gott. Gottgott.

Eftir að hafa garfað í gegnum ónýtu bloggfærslurnar frá 2007-08 fatta ég mögulegan hluta ástæðunnar fyrir því að allt er betra í kreppunni. Síðasti vetur gróðærisins virðist hafa verið mesta gróðrarstía einhverra endalausra ógeðsbaktería hér á heimilinu. Við vorum veik ALLAN veturinn. Í febrúar fæddist síðan Hraðbátur og fékk sitt fyrsta kvef þriggja vikna.

Þetta var fyrsti vetur Rannsóknarskips í kennslu og fyrsti vetur Freigátunnar á leikskóla. Ég var að byrja í ritstjórnarnáminu átti að vera í tímum einn dag í viku fyrri hluta vetrar og komst ekki nærri alltaf. Því síður í bumbusund og -jóga. Upprifjun á þessum hryllingsvetri draga fram minningar um ÓTAL daga í horkenndu stofufangelsi með geðvondri Freigátu. Um vorið voru síðan kirtlar rifnir úr hálfri fjölskyldunni og allt hefur verið fáránlega mikið auðveldara síðan.

Svo mjög að hrun og samdráttur í peningamálum hefur ekki haft teljandi áhrif á geðfegurð fjölskyldunnar. Enn sem komið er.

Ferlega hefur maður það nú gott. Þrátt fyrir alltsaman.

Engin ummæli: