Unglingsbátur þarf að mæta til læknis klukkan 10 á aðfangadagsmorgun!
Móðurskip er að bíða eftir upphringingu frá mínum lækni þar sem tveir pensillínkúrar hafa ekkert mikið sljákkað í horinu í hausnum. Rannsóknarskip er í vinnunni, með hálsbólgu og sleppu. Ungarnir tveir fóru í leikskólann eftir 12 tíma svefn. Freigáta búin að hafa hor í hálfan mánuð og Hraðbátur rétt að skríða upp úr hita sem hann var með alla síðustu viku.
Liggur við að fjölskyldan hefði þurft einhverja c-vítamín ferð um jólin. Ég held við séum öll að finna mikið fyrir myrkrinu þennan veturinn. En nú er hálfur mánuður í jólin og ekkert obboðslega mikið hefur gerst í undirbúningi. (Ég er reyndar búin að komast að því að aðventuljósaperur eru uppseldar víðast hvar.)
En prófið mitt hefur verið framið. Útvarpsþáttur er upptekinn. Helgi dauðans er komin í jólafrí. Nú ætti að vera nokkuð gott næði til að skrifa doktorsritgerðarinngang og leggja drög að nokkrum viðtölum í hana.
Kannski rétt að reyna að hræra aðeins í draslinu á skrifborðinu og skjáborðinu fyrst? Með jólatónlist í eyrunum?
Ég ætla allavega ekkert að vera stúrin yfir þessum veikindum. Það þýðir ekkert. Svo þarf ég líka að ná í halann á kvíðaröskuninni og hætta að hafa áhyggjur af öllum sköpuðum hlutum. Það hefur sjálfsagt ekkert verið að hjálpa heilsufarinu undanfarið. Innilokunarkenndina yfir því að vera innikrumpuð í fjölbýli með íbóðir á alla kanta og hús í hrúgum í allar áttir þarf líka bara að umbera í þessi 2 og 1/2 ár sem eftir eru á þessum stað. Vissulega hefur sína kosti að búa í 101. En ég er víðáttubrjálæðingur. (Í öfugum skilningi þess sjúkdómsheitis.) Vil helst geta komist ÚT með lítilli fyrirhöfn. Hafa fáa bíla, litla umferð, ekki mörghundruð manns sem búa í kallfæri. Jafnvel bara engan.
En þetta getur maður leyst með því að fara reglulega útúr bænum, út á land og flytja jafnvel búferlum í nokkra mánuði yfir sumartímann. (Þessa dagana dreymir mig mjög um annað Egilsstaðasumar, ef ég finn á því flöt.)
Jæjah... Upphitun lokið.
13.12.10
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Aðventuljósaperur - hvað í ósköpunum er það?
Ljósaperur sem passa í aðventuljós.
Sem eru með biluðum perum.
(Eða mögulega ónýt.)
Ég náði að lækna útiseríuna mína sem var með 2 x 7 perur úti, var ekkert smá stolt þegar það verkefni gekk upp :o) Baráttukveðjur sem sagt.
hrafnhildur
Skrifa ummæli