23.2.11

Um tækni dauðans og djöfulsins og hvernig eitt leiðir af öðru

Menn velta kannske fyrir sér hvort ég sé ekkert að vinna? Bara ybba mig á blogginu og svona? Jú, þannig er að gengið hefur á með samskiptum við fasteignasöluna í dag. Tilboð hefur borist í íbúðina góðu, sem sléttmaukar okkur uppúr skuldunum, eftir gagntilboð og gagn-gagn.

Nú er komið að því að hinkra aðeins og gá hvort einhver býður betur. En ég á svo sem ekkert endilega von á því. Þó eru einhverjir að koma að skoða í dag.

Allavega. Í ferðinni var fjárfest í ípotti hinum þriðja. Ípottasaga mín er orðin ansi margslungin og leiðinleg. Ípottur hinn fyrsti kostaði eina evru árið 2007 og kom í kaupbæti með tölvunni minni. Hann lést í þvottavélarslysi. Svosem eins og síminn minn hefur mögulega gert einnig, eftir smá ævintýri í gær. Ípottur fyrsti var oggulítill shufflari. Af gömlu gerðinni. En þegar hann lést var hætt að framleiða hann, komin önnur og asnalegri týpa í staðinn. Hann hafði stjórntækin á snúrunni og heddfónunum, og nokkuð fyrirséð var að þau yrðu mjög fljótlega ónýt.
Eftir nokkurn tíma af alvarlega leiðinlegum og tónlistarlausum útihlaupum fjárfesti ég nú samt í svoleiðis. Og eyrnavesenið eyðilagðist fljótlega. Og nýtt kostaði svipað og nýr ípottur.

Það næsta sem gerist er að gaurarnir hjá Apple ákveða að fara aftur að framleiða "gamaldags" shufflara. Þá fyrst varð ég nú nokkuð pirruð á þeim. En fjárfest var í slíkum núna í þessari ferð. (Þar sem við hann má brúkað hvaða heyrnartól sem hvurvill.)

Sem sagt, ípottur þriðji kominn í hús og hrakfarir á enda, eður hvað?

Óekkí.

Í dag ætla ég að fara að hlaða kvikindið. Tölvan tilkynnir mér samviskusamlega að iTunes sé of gamalt til að höndla hann. Ég sæki nýtt iTunes. Sem aftur tilkynnir mér að stýrikerfið mitt sé of gamalt til að höndla það.

Í ljós kom að um tveimur mánuðum eftir að ég verslaði þessa ágætu tölvu, árið 2007, var gefið út nýtt stýrikerfi. Og nýja iTunes getur ekki lengur talað við það gamla. Og nýir ípottar geta ekki lengur talað við gamalt iTunes.

Stýrikerfið get ég ekki öppdeitað í án þess að borga fyrir það vænan skilding, og hætta síðan á að týna doktorsritgerðinni minni og öllu öðru sem í móðurborðinu leynist, við uppfærsluævintýr.

Andskotinn, amma hans og allt þeirra hyski.

Búin að fjárfesta í "White Leopard" (vegna þess að skítlegasta peningasog heitir alltaf einhverjum ubernáttúrulegum nöfnum) og bið áfram til Mammons að íbúðin seljist áður en vísarekningurinn kemur.

1 ummæli:

Spunkhildur sagði...

Þetta er snilld.

Símasagan mín er einmitt eins og deyjandi ekkó af þessari sögu.