Dagur 2 byrjaði alveg nógu snemma. Eins og komið hefur fram. En samt nógu seint til þess að ég missti af helminnum af vinnuhópnum mínum. Aðallega vegna þess að það fækkaði í honum úr 17 fyrirlestrum í 6 vegna Fukushima-noju. (Sem er nú heldur en ekki asnalegt vegna þess að við erum svo langt í burtu að jarðskjálftinn fannst ekki einu sinni hér, hvað þá geislunin.) Hvað um það, ég náði 3 af 6 fyrirlestrum þar og síðan var haldið á Buraku-sýningu. Það er fyndið brúðuleikhús með sögumanni, sem syngur söguna eiginlega. og undirleik á shamishen. Sem er hljóðfæri sem hljómar falskt en er það ekki. Í stuttu máli frömdu ástföngnu hjónin morð og harakiri í lokin og allir ánægðir. Alveg ferlega gaman að sjá. Hér er nörd um Bunraku.
Í dag, dag 3, var ég í "fríi" vegna þessarar fækkunar í vinnuhóp, en notaði það gríðarlega vel. Fann allavega einn banka hvar ég get tekið út pening. Það tók mikið pappísrflóð og ég fæ ekki að taka út mikið á sólarhring. Svo mál morgundagsins verður að finna hraðbanka sem er til í kortin mín eða annan svona stórbanka nálægt háskólasvæðinu. Sem er alveg trikkí vegna þess að nú gerist prógrammið strengra með hverjum degi.
Allavega, aftur að deginum í dag. Mætti um 11.30 upp í háskóla til að fara í leikhús. Hljómaði spennandi. Leikhús sem ævinlega er alfarið kvenkastað og sé maður of hávær um ágæti þessa leikhúss (ef maður sé fullorðin kona) ku kona fá á sig lesbíustimpil. Spennandi?
Tjah... hefði maður haldið.
Vitiði hvað? Það er hægt að setja 100 konur á svið... í öllum fötunum og án nokkurs klámívafs, og sneiða samt alfarið hjá öllu görlpáveri og vera með tjúllaða karlrembu í gangi. Þetta er sumsé japanskt glimmerleikhús, alveg brjálað vinsælt... Og allar stúlkurnar sem eitthvað kveður að í melódramatískum (og VONDUM) söngleikjunum eru í karlmannsgervi. Til að bæta gráu ofan á svart eru leikkonurnar, allar hundrað, ÆÐISLEGAR. En mig langar mest að leita uppi alla listræna stjórnendur sem og leikhússtjórnendur og eigendur og berja þá fast með skóflu. Sérstaklega tónlistarhöfund og þann sem ákvað að sinfóníuhljómsveitinn undir sviðinu ætti að hljóma eins og lyftutónlist... eða nei, frekar þennan sem ákvað að leikritið ætti að vera þetta ömurlega sem frændans samdi... eða kannski búningahönnuðinn sem bar ábyrgð á öllu geðveika glimmerinu... Úr vöndu að ráða.
Fyrirbærið heitir Takarazuka. Hér er tíser úr heimildamynd um fyrirbærið.
Um kvöldið varð aftur ponkulítið gaman. Artfart með kóreisku sviðslistakonunni Kim Manri sem fékk lömunarveiki þegar hún var lítil, varð mjög hreyfihömluð og hefur gerð sér hreyfilistform úr því. Sýningin hér Uri Omoni eða „Mamma mín.“ Hún var nokkuð hæg og ég verð að viðurkenna að ég pávernappaði aðeins inn á milli, en þetta var flott og gaman að heyra Lambið hinsta (öðru nafni Last Rose of Summer) í lokin.
Eftir sýninguna fundum við litháenska stelpu og leituðum svo uppi veitingastað þar sem við átum japanskt og drukkum bjór til miðnættis. Sem er orðin einskonar hefð...
8.8.11
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli