12.8.11

Dagur 6 og 7. Vélmenni, Karókí og Kyoto.

Jó!

Síðasti ráðstefnudagurinn rann upp. Ég fór á eintómar skrítnar málstofur. Fyrst um gríðarlega furðulegar ofur-nútímaóperur, svo á leiklistarsögumálstofu (þar sem hinn íslenski fyrirlesturinn var, Magnús Þór Þorbergsson að tala um fyrstu Shakespeare-uppfærslurnar á Íslandi) og síðan málstofu um vélmennaleikhús sem ég fór síðan að sjá. Android/robot. Þar sem vélmenni lék annað hlutverkið. Sem sagt, geminoid sem var eiginlega alveg eins og maður. Eða, þ.e.a.s., kona. Svoooo margir Buffy-þættir, og kvikmyndir svifu fyrir hugskotsjónum. Ekki síst Bladerunner, sem er að hluta til tekin í Osaka. (Þannig að maður hefði nú haldið að menn ættu að vita betur þar en að vera að þróa vélfólk?) Allavega, bráðum þarf semsagt ekki lengur leikara eða leikstjóra, bara góðan forritara. ;D Þetta var talsvert krípí.

Um kvöldið var síðan kveðjuveislan. Hún var haldin í svona "gestastofu" þar sem heimssýningin nítjánhundruðsjötíu og eitthvað var haldin. Ofboðslega flott og klassí, endalaust mikið af mat og drykk og flínkir sushigerðarmeistarar bjuggu til sushi á staðnum. Það var flott. Endaði á flugeldasýningu þar sem allir voru boðnir velkomnir til Santiago í Chile að ári. Jámjám.

En þetta partí var ekki nema svona 2 tímar og þegar við komum aftur í bæinn um tíuleytið var haldið í mikilvægt verkefni. Japan er upprunaland karókísins. Ferð á slíkan stað er klárlega ekki ómikilvægari en að sjá Noh-leikhús. Viðleitnin bar árangur, 8 manns skunduðu saman inn á karókístað. Þar fær hver hópur sér (og vel hljóðeingangrað) herbergi með allskonar græjum og lista yfir öll lög sem maður hefur heyrt um. Svo er svona dyrasími, og í hann talar maður til að panta bjór. (Sem var oft gert.) Við ætluðum að vera þarna í 2 tíma... þeir urðu fjórir, og gríðarleg tilþrif voru sýnd. Í einsöng sem samsöng. Þetta var bara með því minna leiðinlegu sem fyrir mig hefur komið. Er enda búin að vera með Big in Japan með Alphaville á heilanum síðan. Og samlandi minn kom út úr skápnum sem Elvis Presley og Kananum í hópnum þótti sýnt að ég ætti að leggja fyrir mig kántrísöng... sem ég veit nú ekki alveg um. Allavega, Complete Vocal tæknin var alveg að gera sig. (Ég vissi að hún myndi koma sér vel, einhverntíma.)

Eins og skiljanlegt er þá var heilsan kannski ekki alveg eins og best verður á kosið morguninn eftir. Og það var HEITT. Það var reyndar heitt allan tímann, en þennan morgun var HEEIITTTT. Að afloknum lokaumræðum og smá kynningu á næstu ráðstefnu tókum við nokkur þá einstaklega heimskulegu ákvörðun að fá okkur indverskan í hádeginu. Það var einstaklega heimskulegt og bætti ekki á líðanina neitt sérstaklega.

En það var enginn tími til að velta sér upp úr því vegna þess að næst á dagskrá var hálfs dags skoðunarferð um Kyoto. Hálfur dagur þar sýnir manni svo sem ekki mikið. En við náðum að fara á í tvö svona... musteri eða tilbeiðslustaði eða þannig og borða svo á fínum veitingastað. Maður þyrfti líklega viku í Kyoto. Ég er búin að pakka niður öllum upplýsingunum mínum, þannig að ég held ég verði bara að skrifa nánari úttekt, með myndum og svona, þegar ég kem heim.

Núna ætti ég eiginlega að leggja mig smá. Eftir 2 tíma þarf ég að tékka mig út af hótelinu. Síðan þarf ég að drepa einhverja 7 tíma áður en kemur tími til að fara á flugvöllinn. Ég hef hugsað mér að finna einhverja vandlega loftkælda verslunarmiðstöð og athuga hvort ég get ekki komið einhverjum fjármunum í lóg. Öllum finnst allt dýrt í Japan... nema Íslendingum og Norðmönnum. Í gær fann ég júkötur (svona japanskir sloppar) á rándýrum ferðamannaprís... sem er svona 7000 kall. Það fannst mér nú ekki mikið. Svo ég er að spá í að finna svoleiðis í venjulegri búð.

Jæja.
Sof.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mmmmm skemmtileg lesning.
með hilsu ... Hrafnhildur